141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

kostnaður við íþróttaiðkun landsbyggðarfólks.

136. mál
[17:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hv. þingmaður spyr hvernig ég hyggist beita mér gegn þeirri öfugþróun að aukinn kostnaður við íþróttaiðkun dragi úr íþróttaþátttöku.

Ég vil fyrst nefna að sem betur fer eru enn engar vísbendingar um að íþróttaþátttaka fari minnkandi þrátt fyrir að forsvarsmenn íþróttafélaga um land allt hafi lýst áhyggjum af því. Við höfum séð þátttöku í íþróttastarfi á Íslandi aukast undanfarin ár. Það á bæði við um almennings- og keppnisíþróttir sem eru tveir pólar í íþróttastarfi á Íslandi. Þessi þróun er ekki sjálfgefin, hreint ekki. Ég tel að þegar við horfum á þessa miklu þátttöku verðum við að skoða hin opinberu framlög sem renna til jöfnunar ferðakostnaðar, til afreksstyrkja og til reksturs sérsambanda sem nú reka fleiri landslið og styðja við aukinn fjölda afreksfólks. Við þurfum að horfa á þetta í heild sinni.

Ef við lítum á ferðasjóðinn — það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, að hann hefur ekki hækkað eins og hann átti að gera — var upphaflega hugmyndin sú að hann ætti að hækka með tilteknum hætti. Við höfum reynt að halda honum í horfinu. Hann var 59 milljónir árið 2008, 57 milljónir 2010, 54 milljónir 2011 og í fyrra hækkaði hann upp í 65 milljónir. Það var tímabundin ráðstöfun sem kom inn við 3. umr. fjárlaga. Ég hefði talið æskilegt að hún mundi halda sér enda var sú áhersla lögð fram í íþróttastefnu stjórnvalda frá 2011. Þar voru lagðar þær áherslur að efla þyrfti bæði Ferðasjóð íþróttafélaga og Afrekssjóð ÍSÍ og helst þannig að framlag til þeirra fylgdi verðlagsþróun. Það gildir almennt ekki um þá sjóði sem við rekum, en ef þeir fylgja ekki verðlagsþróun er auðvitað hættan sú að þeir rýrni af sjálfu sér. Það skiptir líka miklu máli að við hugum að stuðningi við sérsambönd þannig að þeim sé gert kleift að halda úti landsliðum og taka þátt í alþjóðastarfi sem fulltrúar Íslands.

Ég hef átt í viðræðum við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands um hvernig við getum unnið saman að því að binda samstarf ríkis og sambandsins í heildarsamning milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Íþrótta- og Ólympíusambandsins. Við höfum bæði rætt inntak og áherslur en líka skoðað hvernig unnt sé að efla stuðning hins opinbera, stuðning ríkisins, við íþróttastarf í skrefum fram til ársins 2016 sem er næsta ólympíuár.

Ég hef fylgst með, eins og hv. þingmaður, varnaðarorðum forustufólks íþróttafélaga á landsbyggðinni um háan kostnað vegna keppnisferða. Það er algjörlega rétt að kostnaður foreldra hefur hækkað. Það er eins og hv. þingmaður nefnir, hækkun eldsneytisverðs skilar sér í flugfargjöldum, rútufargjöldum og verði bílaleiga. Það er erfitt að segja eitthvað við því. Ég held þó að ef hið opinbera getur lagt fram áætlun í samráði við ÍSÍ þá sjáum við þess merki að stuðningur atvinnulífsins eflist og samfélagsins líka — við sjáum raunar þegar ákveðin merki um það, þar má nefna ferðaþjónustufyrirtækin. En ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, að mikilvægt sé að hið opinbera komi líka þar inn, bæði ríki og sveitarfélög. Ég treysti því að við náum góðri lendingu í þessu máli í samræmi við íþróttastefnuna, ég vonast líka eftir því. Ég veit að margir hv. þingmenn hafa áhuga á því að svo verði. Ég vona að þær fyrirætlanir nái fram að ganga enda hefur það sýnt sig í úthlutunum frá ferðasjóðnum frá 2008 að þeir sem ferðast lengst fá hæstu framlögin. Hann hefur nýst vel, þjónað markmiðum sínum og það er mikil ánægja með þennan sjóð í samfélaginu. Þetta er að sjálfsögðu hluti af þeirri framtíðarsýn sem við höfum verið að ræða við ÍSÍ.