141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

Náttúruminjasafn Íslands.

144. mál
[17:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þessa ágætu kynningu. Ég er með fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um Náttúruminjasafn Íslands. Spurningarnar eru sex og fyrirspurnin því nokkuð víðtæk.

Nú er svo komið að maður hefur vaxandi áhyggjur af stöðu Náttúruminjasafns Íslands. Það má segja að mikill tvískinningur ríki í þjóðarsálinni um þetta safn. Við erum gríðarlega stolt af náttúru Íslands og þreytumst seint á að lýsa því hvað hún sé stórbrotin og fögur. Það má líka sjá í því að um 80% ferðamanna sem koma til Íslands nefna náttúru landsins sem meginástæðu þess að þeir koma hingað. Við leggjum áherslu á að okkar ungu skólanemendur læri um náttúruna og almenningur beri virðingu fyrir náttúrunni og þekki hana. Samt hefur okkur ekki tekist að koma upp náttúruminjasafni á Íslandi. Það er eiginlega ótrúlegt hvað við höfum sofið á verðinum í því sambandi.

Við höfum þó sett lög um að Náttúruminjasafn Íslands eigi að vera eitt þriggja höfuðsafna á Íslandi. Hin söfnin eru Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands. Ágætlega er búið að þeim en Náttúruminjasafn Íslands er eiginlega ekki til, má segja. Nú er svo komið að búið er að pakka niður þeim gripum sem safnið hefur búið yfir og koma þeim í geymslu einhvers staðar. Ein fyrirspurnin lýtur að því hvar þeir gripir eru.

Síðan höfum við horft upp á að búið er að úthýsa safninu úr því húsnæði sem það var í, eða þeim vísi að safni sem þar var, það átti sem sagt að setja upp sýningar í því húsnæði. Nú er safnið hvergi og við erum að leita að nýju húsnæði. Perlan hefur verið rædd í því sambandi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort komin sé niðurstaða í þau mál eða hvort búið sé að skoða frekar aðra kosti eins og Lækningaminjasafnið á Seltjarnarnesi eða Þjóðmenningarhúsið sem ég hef sjálf bent nokkrum sinnum á. Hvernig standa þessi mál yfirleitt?

Ríkisendurskoðun bendir á í skýrslu sem stofnunin gaf út í janúar á þessu ári að lagaumhverfið er ekki gott hvað varðar samskipti Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafns Íslands. Lög um þessar stofnanir skarast og ekki hefur tekist samstarf á milli þeirra. Það ríkir tortryggni og togstreita, segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég vil spyrja af hverju ráðuneytið hefur ekki lagt fram frumvarp til að skera úr um þennan ágreining eins og þingmenn hafa kallað eftir. Við vorum boðuð á sérstakan samráðsfund í ráðuneytinu á fyrri stigum. Aðalskilaboð þingmanna til ráðherra voru: Við viljum fá frumvarp sem sker úr um ágreininginn og að lagað verði til í lagaumhverfinu.

Af hverju er (Forseti hringir.) menntamálaráðuneyti og hæstv. ráðherra með þetta mál í þeirri biðstöðu sem við höfum á tilfinningunni að málið sé í? Hvað á að gerast næst í þessum málaflokki?