141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

Náttúruminjasafn Íslands.

144. mál
[17:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ítarlegu fyrirspurn. Ég mun reyna að fara eins hratt yfir og ég get.

Eins og hv. þingmaður nefndi skipuðu mennta- og menningarmálaráðuneyti og Reykjavíkurborg í ágúst síðastliðnum starfshóp til að skoða möguleika á því að koma upp náttúruminjasafni eða sýningu á vegum Náttúruminjasafns í Perlunni. Þar sátu Guðni Tómasson og Eiríkur Þorláksson af hálfu ráðuneytisins auk setts forstöðumanns Náttúruminjasafnsins, Margrétar Hallgrímsdóttur. Fulltrúar Reykjavíkurborgar voru Ágústa Sveinbjörnsdóttir, Björn Axelsson, Svanhildur Konráðsdóttir og Hrólfur Jónsson sem stýrði hópnum. Þessi hópur fundaði reglulega í ágúst og september, hélt m.a. hugarflugsfund með fulltrúum frá Náttúrufræðistofnun, náttúrugripasöfnum og öðrum söfnum, hönnuðum og öðrum sem talið var að gætu lagt málinu lið. Enn fremur var rætt við arkitekt Perlunnar, Ingimund Sveinsson, og fulltrúa sérstaks áhugahóps um málið, Hjörleif Guttormsson. Hópurinn hefur lokið störfum og skilað greinargerð um þá hugmynd að sett verði upp náttúruminjasýning Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni.

Perlan er ekki hönnuð til sýningarhalds en býður upp á möguleika vegna staðsetningar í borgarlandinu, víðsýni og opins rýmis. Hún er að sjálfsögðu þegar kennileiti í höfuðborginni með útsýni til jökla og fjalla, hafs og himins og vatnstankarnir gætu gefið þessari grunnsýningu sérstakt gildi af því að þar þarf að fjalla um þá auðlind. Tengsl við opin svæði gætu líka nýst og haft sérstakt gildi. Sýning í Perlunni gæti í sjálfu sér teygt sig út í umhverfi Öskjuhlíðar með sjónræna tengingu við fjarlægari náttúru Íslands.

Hins vegar telur hópurinn að miklu skipti hvaða hlutar Perlunnar yrðu ætlaðir fyrir sýningu af þessu tagi. Nauðsynlegt sé að smíða millihæð í hluta hins opna rýmis til að hugmyndin gangi upp. Frágangur mannvirkisins og smíði millihæðar sé því forsenda þess að húsið henti fyrir grunnsýningu höfuðsafns um náttúruminjar.

Hópurinn telur nauðsynlegt að að minnsta kosti einn eða fleiri tankar verði hluti sýningarrýmis til lengri tíma eigi hugmyndin að vera raunhæf. Hins vegar telur hann að án verulegra viðbygginga bjóði húsið ekki upp á þann möguleika að þar verði hægt að hýsa alla starfsemi Náttúruminjasafns Íslands og vísar þar sérstaklega til skrifstofurýmis og annars slíks rýmis fyrir utan geymslur.

Nú verða teknar upp viðræður til að kanna betur fjárhagslegan grundvöll þeirra hugmynda sem koma fram í greinargerð starfshópsins. Ég hef líka í hyggju að boða aftur á fund þann þingmannahóp sem allsherjar- og menntamálanefnd skipaði til samráðs. Ég veit að einhver vandkvæði hafa verið á því að ná hópnum saman en til stendur að fara miklu ítarlegar yfir skýrsluna því að hér er auðvitað bara farið hratt yfir. Aðrir staðir hafa ekki verið formlega til skoðunar þótt ýmsir kostir hafi að sjálfsögðu verið nefndir.

Hv. þingmaður spyr um gripina. Þeir gripir sem safnað hefur verið á vegum Náttúruminjasafns Íslands eru nú geymdir í ófullnægjandi aðstöðu í kjallara Loftskeytastöðvarinnar við Suðurgötu. Unnið er að samningum við Náttúrustofu Kópavogs um að hún varðveiti tímabundið umrædda muni. Verið er að undirbúa þá til flutnings til að tryggja varðveislu þeirra sem best.

Ég vil nefna, af því ég las það á forsíðu Fréttablaðsins að flutningarnir kynnu að hafa í för með sér að þess yrði krafist að gripunum yrði skilað, að það er ekki rétt. Ég hef undir höndum staðfestingu frá þeim aðilum sem gáfu gripina á sínum tíma. Þeir töldu að þarna væri um einhvern misskilning að ræða. Mér finnst ágætt að halda því til haga.

Hv. þingmaður spyr réttilega um niðurstöður í vinnu við lagabreytingar. Við skoðuðum lögin um Náttúruminjasafn og ég ræddi við umhverfisráðherra sem fer með málefni Náttúrufræðistofnunar. Í framhaldinu hefur settur forstöðumaður safnsins átt fundi með forstöðumanni og öðru starfsfólki Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar hefur komið fram vilji til samstarfs og gerð samninga í samræmi við ákvæði gildandi laga sem eiga að tryggja safninu aðgang að öllum þeim munum sem eru í vörslu Náttúrufræðistofnunar til sýningarhalds.

Það er líka unnið að endanlegri stefnumótun fyrir starfsemi safnsins. Þar til þeirri vinnu er lokið — við eigum von á að henni ljúki alveg á næstunni — þá munum við meta það, ef samningar nást, hvort hv. þingmenn og sú sem hér stendur telji það nægja til að við getum haldið áfram með safnið eða hvort skoða þurfi frekari lagabreytingar. Ég tel að unnt sé að færa gripina á milli án lagabreytinga, en við ætlum að láta reyna á það til fulls núna.

Hv. þingmaður spurði einnig í þeirri fyrirspurn sem lögð var til mín um starf forstöðumanns. Safnstjóri var settur 8. maí síðastliðinn, en stefnt er að því að auglýsa stöðu forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands um næstu mánaðamót.