141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Mývatn er perla sem er í mikilli hættu. Á grunni 10 ára gamals umhverfismats hefur Landsvirkjun nú hafið framkvæmdir í skjóli Skútustaðahrepps við byggingu stöðvarhúss og gerð aðkomuvegar að 45–90 megavatta jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi þó að ekkert virkjanaleyfi liggi fyrir. Þetta eru að mínu mati brigð á þegjandi samkomulagi um að ríkisfyrirtækin að minnsta kosti haldi að sér höndum í virkjanaæði meðan rammaáætlun hefur ekki verið afgreidd á þinginu.

Þetta mál er komið á forsíður blaða og á dagskrá umhverfis- og samgöngunefndar vegna árvekni Landverndar og Fuglaverndar, frjálsra félagasamtaka sem hafa staðið vaktina um Mývatn og hafa nú krafist þess að stjórn Landsvirkjunar stöðvi framkvæmdir nú þegar enda eru þær ekki afturkræfar. Þá hefur Landvernd krafist þess að Landsvirkjun láti vinna nýtt umhverfismat í stað hins 10 ára gamla mats sem fyrir liggur enda hefur margt breyst í viðhorfum og í þekkingu manna á nýtingu jarðhitans og áhrifum þess á umhverfið á þeim tíma.

Þá hafa félagasamtökin Landvernd og Fuglavernd óskað eftir því að út frá Ramsar-samningnum verði athugað hvaða áhrif fyrirhuguð virkjun getur haft á lífríki Mývatns og einnig að vatnið verði tekið á sérstaka skrá yfir mikilvæg votlendi sem eru í hættu vegna aðgerða mannanna. Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 2004 ber með sér hversu mikil hætta getur stafað af jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi fyrir Mývatn. Þar eru listaðar upp í löngu máli þær mótvægisaðgerðir sem þarf að grípa til, meðal annars hvernig fylgst skuli með því hvort jarðhitavinnslan hafi áhrif á efnainnihald og streymi volgs grunnvatns til Mývatns en þetta eru atriði sem skipta sköpum fyrir allt líf í vatninu og fyrir vistkerfi þess í heild.

Frú forseti. Í þessu máli kristallast hversu mikilvægt er að tryggja frjálsum félagasamtökum aðkomu að öllum upplýsingum og ákvörðunum sem varða mikilvæg náttúruverndarsvæði. Þetta ætti að vera okkur áminning um að ljúka nú gerð rammans og hlúa að frjálsum félagasamtökum á sviði umhverfismála á allan hátt.