141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil beina spurningum til hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Valgerðar Bjarnadóttur. Í fyrsta lagi: Hvað þýðir fyrsta spurningin sem þjóðin á að greiða atkvæði um eftir örfáa daga, en hún er: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Hvað þýðir að vera lagt til grundvallar? Þýðir það að ekki megi breyta tillögunum neitt eða óverulega? Erum við þá að samþykkja til dæmis 113. gr., þar sem segir að 53 þingmenn geti breytt stjórnarskránni einir sér? Þeir gætu til dæmis ákveðið að leggja af kosningar næstu 20 árin og að þingmennskan ætti að erfast til barna, eitthvað svoleiðis. (Gripið fram í: Skoðum það.) (Gripið fram í.)

Síðan er mjög víða framsal í þessum tillögum og sagt að Alþingi skuli gera þetta og hitt, tryggja rétt barna með lögum. Hvað gerist ef Alþingi gerir ekki neitt í því eða gerir eitthvað allt annað? Mig langar til að spyrja hv. þingmann um hvað felist í þessu.

Síðan er spurning um framsal ríkisvaldsins í 114. gr. ef ég man rétt. (Gripið fram í: 111.) Í 111. gr., þar er framsal ríkisvaldsins gert mjög auðvelt. Og hvað um alla þá óvissu sem frumvarpið veldur, þessi kollsteypa á stjórnarskránni? Allir dómar Hæstaréttar verða ekki lengur lagðir til grundvallar úrlausnum mála. Ég vil spyrja hv. þingmann um það.

Í tilefni af því að hæstv. allsherjarráðherra sagði í gær að hann gæfi ekki upp hvaða skoðun hann hefði á málinu — hann er orðinn skoðanalaus, blessaður maðurinn — vil ég geta þess að ég mun fara á kjörstað og greiða atkvæði en ég mun segja nei við fyrstu spurningunni.