141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að hv. þm. Pétur Blöndal skilji ekki hvað spurningin þýði. Þar er einfaldlega spurt hvort fólk vilji að í stjórnarskrá Íslands verði þau ákvæði sem lögð eru til í tillögum stjórnlagaráðsins. Það eru til dæmis ákvæði um að mannréttindi verði efld, ákvæði um náttúruvernd, sem ekki er í stjórnarskrá núna og ákvæði um skýrari aðskilnað löggjafar- og framkvæmdarvalds, svo sem eins og að ráðherrar sitji ekki á þingi. Það er ákvæði um lögréttu, þ.e. að þingnefndir og minni hluti þingmanna geti kallað eftir því að lögrétta skoði hvort frumvarp sem lagt er fyrir þing standist stjórnarskrá. Það er ákvæði um að óheimilt verði að framselja vald til alþjóðlegra samtaka eins og til dæmis Evrópusambandsins án þess að þjóðin greiði um það atkvæði. Og það er ákvæði um að í framtíðinni verði breytingar á stjórnarskrá bornar undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Þetta eru dæmi um eitt og annað sem er í tillögum stjórnlagaráðs sem fólk hefur fengið inn á heimili sín og ætti að kynna sér mjög vel. Spurningin er: Vill fólk að þetta sé í stjórnarskránni okkar? Það er mjög einfalt, að þetta sé lagt til grundvallar.

Síðan vil ég aðeins koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi um að 5/6 hluti þingmanna geti breytt stjórnarskránni. Sjálfstæðismenn höfðu ekki mikinn áhuga á því þegar við leituðum aftur til stjórnlagaráðsins um ýmis atriði og þar á meðal þetta ákvæði. (Forseti hringir.) Þingið fékk það svar frá stjórnlagaráði að það samþykkti þessa aðfinnslu okkar, akkúrat þá sem hv. þm. Pétur Blöndal gerði, (Forseti hringir.) að þetta ætti ekki að vera í stjórnarskránni.