141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í umræðuna um þessar kosningar eða hvað þetta er, þann 20. október, en geri það þó örlítið. Ég held að mikilvægt sé að minna fólk á að kosningarrétturinn er afar dýrmætur. Hæstv. atvinnuvegaráðherra svaraði ekki mjög skýrt í gær þegar hann var spurður út í þessi mál. Ég held að það sé mikilvægt að fólk mæti á kjörstað og hafni þessari vitleysu sem þarna er lögð fram. Ég held að það sé einfalt að segja nei, sér í lagi við fyrstu spurningunni, það mun ég að minnsta kosti gera.

Hinar fimm spurningarnar sem á að spyrja um eru handahófsvaldar af sérvöldum þingmönnum sem ákváðu það bara sjálfir að þessar ættu spurningarnar að vera. Það er ekki eins og það sé einhugur um að spyrja eigi þjóðina að þessu. (Gripið fram í.) Þetta er skoðanakönnun sem lítill hópur þingmanna stendur fyrir, þannig er það. [Frammíköll í þingsal.] Já, að sjálfsögðu eiga menn að mæta og taka þátt í þessari könnun.

Ég vil segja eitt í viðbót. Hér kom upp hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og talaði um framkvæmdir í Bjarnarflagi og þar sé brigð á þegjandi samkomulagi. Það er svolítið sérstakt að heyra stjórnarþingmann tala með þessum hætti þegar ríkisstjórnin, sem þingmenn stjórnarflokkanna styðja væntanlega flestir, svíkur undirritað samkomulag, undirritaða samninga sem snerta til dæmis raforkuverð og raforkuskatta til stóriðjunnar. Þar var undirritaður samningur, gert samkomulag, en samt á að svíkja það. Svo koma þingmenn og kvarta yfir því að eitthvert þegjandi samkomulag sé ekki virt. Það er hins vegar unnið eftir gildandi lögum þarna á norðausturhorninu.

Ég held að þingmenn stjórnarflokkanna ættu að fara að breyta um takt, láta af þeim öfgum sem einkenna þessa flokka. Það var nóg að hafa hægri öfgarnar fyrir nokkrum árum, nú eru það þessar sósíalísku vinstri öfgar sem ráða öllu. [Hlátur í þingsal.] Menn eiga bara að fara veg skynseminnar í þessum málum og fara að efla atvinnu. (Gripið fram í.)