141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er hér komin til þess að ræða um geðheilsu, að vísu ekki geðheilsu þingmanna heldur geðheilsu almennings.

Mjög margt hefur verið í umræðunni í samfélaginu um geðheilbrigðismál. Ég ætla að nefna breytingar á niðurgreiðslu lyfja vegna ADHD. Það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að þær eigi að spara ríkinu 220 millj. kr., þó að einhverjar deilur séu núna á milli ráðuneyta um hvað sé rétt í því.

Í Kastljósi í gær var fjallað mjög vel um stöðu geðveikra afbrotamanna og það er eitthvað sem maður hefur verulegar áhyggjur af. Í umræðunni um stöðu þeirra sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða hefur líka verið bent á að undirliggjandi eru oft geðræn vandamál sem samtök eins og SÁÁ eru að takast á við. Þetta er einfaldlega geysilega stórt lýðheilsuvandamál sem við erum að fást við. Í dag eru geðfötlun og geðsjúkdómar ein helsta ástæða örorku á Íslandi og Geðhjálp eru orðin stærstu undirsamtök Öryrkjabandalagsins. Þetta er vandamál sem við verðum að horfast í augu við. Það er talað um að 1/3 hluti þeirra sem leita sér aðstoðar við ýmsum líkamlegum kvillum á heilsugæslustöðvum leiti þangað vegna undirliggjandi geðrænna vandamála.

Það er kominn tími til að við viðurkennum að við þurfum að horfa jafnmikið til geðheilsu og líkamlegrar heilsu þegar kemur að heilbrigðis- og lýðheilsumálum þjóðarinnar. Á morgun 10. október er einmitt alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn. Ég vil sérstaklega fagna því hversu sköruglega formaður velferðarnefndar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hefur tekið á þessu máli. Hún hefur í hyggju, og nefndin öll, að halda opinn fund um geðheilbrigðismál. Nefndin hefur mikinn áhuga á að (Forseti hringir.) fylgja málinu eftir með einhverjum hætti. Ég vona svo sannarlega að við getum treyst á stuðning ykkar allra hér í þinginu.