141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Enn á ný ætla ég að ræða mál sem brennur meira, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, á fólkinu í landinu en sumt af því sem rætt hefur verið í dag. Það er að fólk hafi eðlilega grunnþjónustu og eigi góða búsetumöguleika í landinu, atvinnu og annað í þeim dúr.

Við fengum áhugaverðar upplýsingar á fundi atvinnuveganefndar í morgun. Við heimsóttum Rarik sem gerir margt mjög vel innan þess ramma sem fyrirtækið fær. Þar kom meðal annars fram að þeir eru álitnir dýrlingar hjá þeim fyrir norðan þar sem þeir brugðust skarpt við norðanáhlaupinu.

Það kom líka fram hjá Rarik að þeir eru að rafmagnsvæða alla fiskvinnslu austan- og suðaustanlands í það stórum stíl að það er ígildi þess að spara 20–25 þúsund heimilisbílanotkun á olíu, ef við umreiknum magnið þar yfir. Svo mikið sparast í olíukaupum og þar er notuð innlend orka. Þangað eigum við auðvitað að stefna. Rarik á engu að síður að greiða arð til ríkisins samkvæmt kröfu ríkisstjórnarinnar og minnkar það möguleikana á að fyrirtækið geti brugðist við ýmsum uppákomum og jafnað húshitunarkostnað landsmanna.

Við tölum um að innleiða þriðju tilskipun Evrópusambandsins um raforkumarkað og hefur verið gengið mjög kaþólskt í eina áttina, en við höfum þó sótt um undanþágur í hina áttina allan tímann. Menn hjá Rarik sögðu að ein forsenda þess væri að að sameina dreifi- og flutningsveitur í eina.

Er eitthvert vit í því, þingmenn góðir, að við rekum fimm opinberar veitur sem eru sérleyfisskyldar, sem eiga að vera í ímyndaðri samkeppni við að dreifa orku á 300 þúsund manna markaði? Væri ekki nær að þetta væri eitt fyrirtæki sem væri leyfisskylt og þá gætum við farið mjög leikandi inn og lagt á 10 aura jöfnun (Forseti hringir.) með sama orkuverði um allt land. Í gær virtist hæstv. atvinnuvegaráðherra ekki hafa nokkurn áhuga á að beita pólitískum þrýstingi. Ég spyr því stjórnarliðana enn: (Forseti hringir.) Hvað ætlið þið að gera í þessu mikilsverða máli til að breyta búsetuþróun í veikustu byggðum landsins?