141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:11]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þessi atkvæðagreiðsla er undarleg tímasóun hér á þinginu því að það hefur þegar greitt atkvæði um í hvaða nefnd málefni rammaáætlunar skuli rædd, að minnsta kosti á þessu þingi. Það var gert um daginn þegar greidd voru atkvæði um nefndarumsjón þingsályktunartillögu um rammaáætlun sem flutt er samkvæmt þeim lögum um rammaáætlun sem hér er flutt frumvarp um að breyta.

Þingsályktunartillagan er nú til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd og að sjálfsögðu á breytingarfrumvarpið þá að vera það líka nema við viljum taka upp þann sið á Alþingi að greiða atkvæði um sérhvert mál eftir 1. umr. eins og gert var í gamla daga og leika okkur að því að gera það þvers og kruss og á víxl eftir því hvað hentar hverju sinni. Hér fer ekki fram efnisleg atkvæðagreiðsla heldur atkvæðagreiðsla um að þingið haldi rétt og skynsamlega á málunum og (Forseti hringir.) að við eigum að senda málið í sömu nefnd og þingsályktunartillöguna sem gerð er samkvæmt sömu lögum (Forseti hringir.) og hér er verið að reyna að breyta.