141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:21]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það kann að vera að einhverjum þyki þetta allt saman vera alger óþarfi. Þá bendi ég á að það er ekki að okkar kröfu sem þessi atkvæðagreiðsla fer fram. Ég lagði til að málið sem ég sjálfur mælti fyrir færi til atvinnuveganefndar þar sem málið hefur alltaf verið unnið fram til þessa, þar til þetta þing tók ákvörðun um að fara með rammaáætlun í umhverfisnefnd. Sú ákvörðun á sér ekki rætur neins staðar annars staðar en í klofningi innan ríkisstjórnarinnar vegna þess að flokkarnir geta ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Þetta er gagngjald Samfylkingarinnar til Vinstri grænna út af öðrum málum. Þess vegna er þetta mál komið þar inn.

Ég velti fyrir mér í þessari atkvæðagreiðslu hvað þingmennirnir í Samfylkingunni ætla að gera, sem undanfarna daga hafa talað fyrir því að flokkurinn verði að færa sig frá þeim vinstri áherslum sem hann hefur gerst sekur um á þessu kjörtímabili. Hvað ætla þeir að gera? Er einhver alvara á bak við þau orð hv. þingmanna Samfylkingarinnar sem eru farnir að tala mjög frjálslega um þetta eftir að formaðurinn ákvað að gefa ekki kost á sér til endurkjörs? (Forseti hringir.) Hvað gera þeir þegar mál eins og þetta koma upp í þinginu? Ná þeir að sýna það í verki að einhver alvara er á bak við orð þeirra? Munu þeir lyppast niður og fylgja foringjanum eða ætla þeir að fara eftir eigin sannfæringu? (Gripið fram í: Er þetta stórmál?)