141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Málið er þannig vaxið að það er tillaga frá flutningsmanni um í hvaða nefnd málið eigi að fara. Það kunna að vera deildar meiningar um það en það er algerlega fráleitt að leggja það svo upp, af því að flutningsmaðurinn heldur fast við sína skoðun, að það sé tímasóun af hálfu flutningsmanns og þeirra sem styðja þann málflutning sem þar kemur fram, að þeir séu að sóa tíma þingsins, þegar önnur tillaga kemur fram þá sé sá aðili að sóa tíma þingsins. Hvers konar málflutningur er þetta, virðulegi forseti? Hér er öllu snúið á haus.

Saga þessa máls, uppruni þess og reyndar einnig það sáttaferli sem átti að koma á og hefur verið eyðilagt af núverandi ríkisstjórnarflokkum byggði einmitt á þeim sjónarmiðum sem hér hefur verið lýst og þess vegna er alveg eðlilegt að tillagan ganga út á það að málið fari í þá nefnd sem flutningsmaður málsins hefur lagt til. (Forseti hringir.)

Ég frábið mér það, virðulegi forseti, að talað sé um að sóa tíma þingsins af þeim sem lagt hafa til aðra tillögu og hafa þar með kallað fram atkvæðagreiðsluna.