141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

3. mál
[14:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Stemningin í salnum, hlátrasköllin og leiðindin yfir því að þurfa að hanga hérna eru svolítið lýsandi fyrir það í hvaða ferli málið er komið. Ábyrgðin á því liggur hvergi annars staðar en hjá ríkisstjórnarflokkunum. Ég vil minna hv. þingmenn á það af hverju þetta mál og vinna við gerð rammaáætlunar var sett af stað. Það var til að reyna að ná sátt, reyna að ná sátt um það hvar skyldi vernda og hvar skyldi nýta. Nú sjáið þið hvert við erum komin eftir að tillagan frá ríkisstjórnarflokkunum kom fram.

Hér stöndum við og sumir þingmenn sitja í sætum sínum og kvarta hástöfum yfir því að þurfa að vera hér undir þessari atkvæðagreiðslu. Svona er þetta einfaldlega — lýðræðið, hv. þm. Margrét Tryggvadóttir.

Málið er komið í þennan farveg vegna afstöðu þeirra sem hér ráða ríkjum og fylgifiska þeirra. (Gripið fram í: … ríkisstjórnarinnar.)