141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:50]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kallar eftir umræðu um stöðu ferðaþjónustunnar og ég skal reyna að fara hér eins og tíminn leyfir yfir það helsta sem hann kallaði eftir umfjöllun um.

Gera má ráð fyrir því að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi verið um 6% á árinu 2011, til samanburður var hlutur fiskvinnslu og veiða um 11% og byggingarstarfsemi um 3,7%. Af því sjáum við að ferðaþjónustan er orðin fyrirferðarmikil í hagkerfinu og hún er búin að slíta barnsskónum sem atvinnugrein. Vöxtur ferðaþjónustunnar mældur í fjölda erlendra gesta er um 7,7% árlega litið yfir langan tíma aftur í tímann en yfir 15% síðustu tvö ár. Stjórnvöld hafa lagt sitt af mörkum með markaðsverkefninu Inspired by Iceland í kjölfar gossins og síðan núna með verkefninu Ísland allt árið, sem unnið er í samvinnu fjölmargra aðila innan greinarinnar og hefur það að markmiði að lengja ferðamannatímann og fjölga störfum. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Til marks um það eru bókanir fyrir haust- og vetrarmánuðina sem eru meiri en nokkru sinni fyrr.

Beinum störfum í ferðaþjónustu fjölgaði um 6,1% á árinu 2011 eða í rúmlega 12.300 manns, þannig að á sama tíma og vinnumarkaðurinn stóð nokkurn veginn í stað var fjölgunin þessi í ferðaþjónustunni. Óbein áhrif ferðaþjónustunnar hafa kannski ekki verið mæld eða greind nákvæmlega enda er ekki auðvelt um vik, en þó má benda á að þau koma væntanlega ekki síst fram í landbúnaði og tengdum greinum, úrvinnslugreinum hans. Þar fjölgaði störfum um 9,1% á árinu 2011 og það er augljóst og það mælist að verslunin í landinu nýtur verulega góðs af fjölgun ferðamanna.

Gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar hér innan lands voru um 15% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins árið 2011 eða 141 milljarður kr., og ef við bætum við umsvifum íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja sem aðallega starfa utan landsteinanna hækkar hlutfallið í 19% eða í 180 milljarða. Til samanburðar voru gjaldeyristekjur af útfluttum sjávarafurðum rúmlega 250 milljarðar eða 26% af heildarútflutningstekjum, mjög svipað og útflutningstekjur orkufreks iðnaðar. Þar vega hins vegar innflutt aðföng mjög þungt þannig að þegar kemur að nettógjaldeyrissköpun siglir ferðaþjónustan við hliðina á stóriðjunni. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2012 jukust gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum um rúma 10 milljarða kr. milli ára eða úr rúmum 57 milljörðum í rösklega 67 milljarða. Á föstu verði er það 12% aukning milli ára.

Fáir treysta sér til að spá með vissu um þróun á fjölda erlendra ferðamanna. Ferðamálastofa gerði það síðast árið 2005 með framreikningi þar sem miðað var við 9% árlegan jafnaðarvöxt og spáði því þá að fjöldi erlendra ferðamanna í ár yrði rétt um 650 þúsund. Það er nú orðið að veruleika og væntanlega gott betur. Ef við framreiknum núverandi stöðu með 7,7% árlegum vexti, sem er langtímavöxturinn aftur á bak, fáum við út að fjöldi erlendra ferðamanna árið 2018 verður yfir ein milljón.

Snúum okkur þá að virðisaukaskattsumræðunni. Það er rétt að í fjárlagafrumvarpinu er boðað að breytingar verði á virðisaukaskatti hótel- og gistiþjónustu þannig að það færist úr neðra í efra þrep. Það á að skila ríkissjóði 3,5 milljörðum á ársgrunni en 2,6 milljörðum kr. á næsta fjárlagaári þar sem gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að breytingin taki gildi 1. maí. Virðisaukaskattur á hótel- og gistiþjónustu, og reyndar veitingahús líka, var eins og alkunnugt er lækkaður úr 14% í 7% skömmu fyrir alþingiskosningar 2007. Sú lækkun virtist ekki skila neinni aukningu sérstaklega í gistingu eða umsvifum borið saman við þróunina sem var í gangi þar á undan. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur metið það svo að ætli menn að breyta virðisaukaskatti á ferðaþjónustu á annað borð sé heppilegur tími til þess núna. Ferðaþjónustuaðilar hafa að sjálfsögðu mótmælt því kröftuglega. Ég tel fráleitt að tala þar um eitthvert rothögg á greinina en get vissulega fallist á að það eru ýmis málefnaleg sjónarmið og sterk rök fyrir því að aðlögunartíminn sé of stuttur, enda búið að gefa út verðskrár fyrir næsta sumar. Yfir það er verið að fara og vísa ég til þess sem fjármálaráðherra sagði þar um í framsöguræðu sinni um fjárlagafrumvarpið.

Þá er að störfum stýrihópur sem skoða á undanskot undan skatti og aðgerðir til að koma í veg fyrir óskráða starfsemi. Ef við lítum á skattinn á Norðurlöndunum er hann mismunandi, 8% í Noregi, 9% í Finnlandi, 12% í Svíþjóð og 25% í Danmörku. Að meðaltali er virðisaukaskattur tæp 11% innan ESB. Þar með er ekki öll sagan sögð því að tekjuskattsprósenta er lág hér og heildarskattbyrði á ferðaþjónustu er með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndunum eða innan Evrópu þegar þetta tvennt er vegið saman. (Forseti hringir.)

Það er margt sem mælir með því að gera þessar breytingar. Með aðeins 7% virðisaukaskattsþrepi getur virðisaukaskatturinn orðið lágur, (Forseti hringir.) jafnvel enginn eða neikvæður á tímum þegar fjárfesting er í greininni. Það hefur væntanlega ekki verið ætlunin að þessi burðuga atvinnugrein byggi við hlið allra hinna og greiddi í sumum tilvikum (Forseti hringir.) engan nettó virðisaukaskatt. En það er vissulega mikilvægt að búa vel að ferðaþjónustunni. Hún á áfram að vera ein af vaxtargreinum okkar og það stendur ekki annað til en að tryggja henni (Forseti hringir.) gott starfsumhverfi sem sé fyllilega sambærilegt við aðrar atvinnugreinar.