141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

staða ferðaþjónustunnar.

[15:01]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Herra forseti. Ég verð seint talsmaður skattahækkana núverandi ríkisstjórnar, en það er rétt að hér komi fram upplýsingar sem við fengum á fundi atvinnuveganefndar í morgun um að fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu leiði til 1,9% hækkunar á heildarkostnaði erlendra ferðamanna ef henni er allri velt beint út í verðlagið. 1,9% hækkun á heildarkostnaði fyrir ferðamenn.

Gisting undanfarin sex ár, það verð sem ferðaþjónustan rukkar fyrir gistingu, hefur hækkað að jafnaði um 12% á hverju einasta ári. Það er ferðaþjónustan sjálf sem hefur séð um hækkanir á þjónustu sinni, það er ekki hægt að hlaupa endalaust í ríkið og kvarta.

Mín upplifun á því að ferðast um landið okkar er að það sé okurverð á gistingu og veitingum mjög víða, t.d. hamborgarar í boði á 2.300 kr. Það er verðlagt í evrum úti á landi. Það er dýrt eða nánast ókleift fyrir Íslendinga að ferðast um landið og gista á hefðbundnum ferðaþjónustu- og gististöðum og borða á veitingahúsum vegna þess að verðlagt er í evrum fyrir erlenda ferðamenn. Og eftir hrunið er þetta orðið allt of dýrt.

Ferðaþjónustan fær að auki hundruð milljóna á ári af skattfé landsmanna til auglýsinga. Ferðaþjónustan sem slík er góð og gild, en mér leiðist þegar heilu atvinnugreinarnar kvarta og kveina og heimta meira og meira af skattfé landsmanna. Þannig á ekki að byggja upp atvinnurekstur í nokkru einasta landi. Ef hann stendur ekki undir sér þá stendur hann ekki undir sér.

Fjöldi ferðamanna, eins og hv. þm. Sigmundur Ernir benti á, er þegar orðinn allt of mikill. Það er kominn tími til að menn fari að skipuleggja þessa hluti til langframa. Breyta þarf gistináttagjaldinu í náttúruverndargjald og hækka það þannig að hægt sé að vernda þá staði sem ferðamenn fara á og hafa þegar valdið tjóni á. Svo þurfum við líka að huga að því að allur þessi fjöldi erlendra ferðamanna er að svipta Íslendinga (Forseti hringir.) þeirri upplifun sem þeir eiga að hafa af eigin landi. Það er verið að disneyvæða og þar með afskræma landið og íslenska menningu (Forseti hringir.) í þjónustu við erlenda ferðamenn. Of mikil ferðamennska gerir það nefnilega. Hún afskræmir (Forseti hringir.) þá þjóð sem býður þeim öllum heim.