141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

staða ferðaþjónustunnar.

[15:10]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það ber að sönnu gleggstan vott um ævintýralegan vöxt í greininni að fyrir örfáum árum síðan voru erlendir ferðamenn á Íslandi um 300 þúsund á ári, nú er spáð að þeir verði komnir upp fyrir 1 milljón eftir fimm ár. Það vekur að sjálfsögðu fjölmargar spurningar eins og tæpt hefur verið á í þessari ágætu umræðu um stöðu greinarinnar. Hún hefur vaxið hratt og því fylgja vaxtarverkir. Það þarf að stíga varlega til jarðar og meta mjög vandlega getu greinarinnar til að borga.

Sett hefur verið af stað sérstök vinna í fjármálaráðuneytinu þar sem farið er yfir skattlagningu á greinina í heild sinni. Þetta er í sérstakri skoðun. En það þarf að taka út fyrir hvað greinin getur borið og hver umsvifin eru til að standa undir auknum virðisaukaskatti á gistingu eins og rætt hefur verið hér og hæstv. fjármálaráðherra gat um í blöðunum fyrir nokkrum dögum að verið væri að skoða. Það þarf að leiða til lykta, áður en ákvörðun er tekin um breytingar, hver sé geta greinarinnar til að standa undir þeim og í hvaða þrepum er hægt að fara í þær. Greinin hefur vaxið feikilega hratt. Það þarf að setja meiri fjármuni í rannsóknir á stöðu greinarinnar og framtíðarmöguleikum. Á að selja inn á einstaka staði eins og nefnt var hérna, eða á að selja erlendum ferðamönnum sérstakan umhverfispassa við komuna til landsins? Möguleikarnir eru gríðarlega margir.

Gjaldeyrissköpunin er mikil eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan. Undir þessu standa fjölmargir litlir aðilar um alla landsbyggðina sem hafa sett mikla fjármuni í uppbyggingu. Þess vegna verðum við að stíga varlega til jarðar í öllum breytingum á umhverfi greinarinnar. Það þarf að vera sambærilegt við aðstæður erlendis af því greinin keppir við ferðaþjónustu úti um allan heim um ferðamenn. Við þurfum að meta mjög vandlega áður en ákvörðun er tekin um nokkrar breytingar hver geta greinarinnar er til að standa undir þeim og áhrif þeirra (Forseti hringir.) á greinina.