141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

staða ferðaþjónustunnar.

[15:15]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, þeim sem hafa tekið til máls. Það var fróðlegt að fá yfirlit frá hæstv. atvinnuvegaráðherra yfir skattlagninguna í nágrannalöndunum því að ferðaþjónustan á í alþjóðlegri samkeppni. Nái þessar tillögur fram að ganga þá verður einungis eitt land í Evrópu með hærri skattlagningu á gistingu en Ísland og það er Danmörk.

Á Norðurlöndunum, í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, var þetta 8%, 9% og 12% og svo er í fleiri ríkjum; Frakkland 5,5%, Liechtenstein 3,8%, Kýpur 8% og þannig mætti áfram telja. Þessi atvinnugrein starfar í alþjóðlegri samkeppni og af því verður að taka mið. Þegar við horfum líka á þær fjárhæðir sem ríkið ætlar að taka af ferðaþjónustunni með þessum hætti, 2,6 milljarðar á næsta ári og 3,5 á ársgrunni, og setjum það í samhengi við það sem kom fram hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um að EBITDA 30 stærstu hótela landsins hefði verið 600 milljónir á síðasta ári. Þetta getur ekki gengið upp. Við horfum þarna á algjört skilningsleysi gagnvart þessari atvinnugrein eins og við höfum séð gagnvart atvinnuuppbyggingu almennt.

Ferðaþjónustan þarf lengri tíma og það er forgangsverkefni að ríkisstjórnin — þeim mun fyrr því betra fyrir ferðaþjónustuna — höggvi á þennan hnút og dragi þessar tillögur til baka. Ef það gerist ekki mun það verða eitt af forgangsverkefnum Framsóknarflokksins, komist hann til valda, að bæta umgjörð ferðaþjónustunnar á nýjan leik. Það er þannig sem ferðaþjónustan getur haldið áfram að vaxa og dafna.

Í lokin langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort til greina komi að að setja upp einhvers konar náttúrupassa eða því um líkt (Forseti hringir.) í stað þessarar hækkunar eins og hugmyndir hafa verið um.