141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að hæstv. ráðherra ræddi svo mikið um mannréttindamál er spurning hvort þetta mál eigi að fara til allsherjarnefndar en ekki utanríkismálanefndar. Við getum haft atkvæðagreiðslu um það, en til að forðast allan misskilning er ég ekki að leggja það til.

Þær útskýringar sem hæstv. ráðherra gaf á þeirri töf sem orðið hefur á fullgildingu þessa samnings og afgreiðslu Alþingis vöktu athygli mína. Mér þykir það miður vegna þess að við getum tekið umræðuna um mannréttindamál í Kólumbíu. Ég held að við Íslendingar ættum að gera allt hvað við getum þar eins og annars staðar til að berjast fyrir lýðræði, mannréttindum og frelsi í heiminum en ég er ekki viss um að slíka baráttu eigi endilega að heyja á vettvangi fríverslunarsamninga.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi í ráðuneyti sínu tekið þessa baráttu fyrir auknum mannréttindum í Kólumbíu eitthvað lengra eða hvort hún einskorðist við þennan samning? Mig langar líka að spyrja um afstöðu annarra EFTA-ríkja en Norðmanna.

Ég tek undir þá áskorun sem fólst í orðum hæstv. ráðherra um að þingið sjálft tæki af skarið og skoðaði þetta. Ég lýsi þeim vilja mínum að þingið klári þetta og ljúki þessu vegna þess að við erum í samskiptum og gerum fríverslunarsamninga innan EFTA-samstarfsins og hljótum því að vera þar af fullum heilindum. Af hverju fórum við út í að gera þennan samning með félögum okkar ef ekki var ætlunin að staðfesta hann? Það er kannski spurning til hæstv. ráðherra.

Við yrðum fljót að komast að annarri niðurstöðu ef málið snerist um viðskipti okkar við mörg önnur ríki sem hafa ekki (Forseti hringir.) hreinan skjöld í mannréttindamálum. Ég nefni sem dæmi að við erum í viðræðum við Kína og (Forseti hringir.) í miklum viðskiptum við Rússland.