141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég segi tek ég undir með hæstv. ráðherra, við eigum að skoða þetta sjálf á þingi, en ég er líka þeirrar skoðunar að við verðum að gæta okkar að blanda ekki þessum tveimur málaflokkum saman, fríverslunarsamningum og utanríkisviðskiptum. Eins og hæstv. ráðherra greindi frá gefst tækifæri í þeim viðræðum og samskiptum á milli þjóða til að hafa áhrif til góðs á þessa málaflokka. Ég held að við ættum að standa okkar plikt gagnvart þessum samningi en kanna jafnframt hvernig mannréttindamálum og því er háttað í Noregi til dæmis.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort aðrir fríverslunarsamningar sem gerðir eru á vettvangi EFTA gætu stöðvast af sömu ástæðu. Nú erum við að gera fríverslunarsamninga við ótal ríki sem ekki hafa öll góða sögu í mannréttindamálum eða í ýmsum málum. Erum við að setja eitthvert fordæmi sem gæti orðið erfitt að fylgja eftir?

Ég ítreka að við þurfum að fara varlega í að blanda þessu tvennu saman og tek undir að með því erum við ekki að leggja blessun á mannréttindabrot neins staðar í heiminum, en við erum að setja okkur á ansi háan hest ef við ætlum að fara að velja úr þau lönd sem við getum beitt þrýstingi. Við sem fulltrúar lítils lands eigum að gæta okkar á því að við sýnum ekki einungis minni löndum mátt okkar og megin þannig að við séum ekki að berja á minni máttar en látum viðgangast mannréttindabrot í stærri samfélögum, eins og oft vill verða.

Svo vil ég rétt hér að lokum, virðulegi forseti, fagna því sem hæstv. ráðherra nefndi um saltfiskinn. Þar sem ég er gift saltfiskútflytjanda kem ég þessari ábendingu um nýja markaði á framfæri við hann.