141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Kólumbíu og landbúnaðarsamningur Íslands og Kólumbíu.

122. mál
[15:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Örstutt út af því máli sem hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt fyrir, þ.e. fríverslunarsamningi við Kólumbíu, þá er það rétt sem hér hefur komið fram að málið hefur áður verið til umfjöllunar og meðferðar í þinginu og var til umfjöllunar í hv. utanríkismálanefnd.

Ástæðan fyrir því að málið hlaut ekki afgreiðslu þegar það var hér síðast var fyrst og fremst staða mannréttindamála, eins og rakið hefur verið. Ég hygg að það sé þannig með alla fríverslunarsamninga sem EFTA gerir nú um þessar mundir og hefur gert um allnokkur ár að í sérstökum formálsorðum er ákvæði um mannréttindamál. Það er stefna sem EFTA tók upp fyrir nokkrum árum og hefur verið fylgt. Ég hef í sjálfu sér ekki heyrt að ágreiningur sé um hana. Mér heyrist það ef til vill núna aðeins hjá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur, að þar séu uppi þau sjónarmið að almennt eigi alls ekki að tengja þessi mál með neinum hætti, en auðvitað getur það alltaf verið álitamál að hve miklu leyti á að gera það og í hvaða tilvikum.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi það að sérstaklega hefðu verið til skoðunar málefni Kólumbíu hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni. Þetta er mál sem við skoðuðum sérstaklega hjá utanríkismálanefnd og þess vegna var það niðurstaðan á þeim tíma að afgreiða málið ekki þá.

Ég tel raunar að sá dráttur sem hefur orðið á málinu kunni að hafa, að minnsta kosti er ekki loku fyrir það skotið, ýtt hugsanlega eitthvað við mannréttindamálum í Kólumbíu og að þau hafi þess vegna þokast í rétta átt eins og hér hefur réttilega verið bent á. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég best veit hefur þróunin verið í rétta átt í Kólumbíu. Það er mikilvægt og jákvætt ef töfin á þessu máli hefur haft eitthvað með það að gera.

Ég vil svo segja að ég er í öllum meginatriðum sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar varðandi viðskiptasamninga almennt. Ég tel að það sé jákvætt að við getum gert þá og sem flesta. En að sjálfsögðu verða þeir að vera í einhverju samhengi og að sjálfsögðu verðum við að meta það á hverjum tíma hvað er hagfellt fyrir okkur og hvaða viðskipti og samskipti við viljum eiga við þau ríki almennt sem við gerum viðskiptasamninga við.

Ég tel eðlilegt að málið fái á nýjan leik umfjöllun í hv. utanríkismálanefnd og ég er sannfærður um að staðan í Kólumbíu er önnur núna og betri en hún var þegar við ræddum þessi mál hér síðast. Af minni hálfu tel ég enga ástæðu til að ætla annað en að þingið geti afgreitt málið núna en að sjálfsögðu mun nefndin fara yfir það og einkum og sér í lagi athuga hvaða breytingar hafa orðið, frá því að málið var hér síðast til meðferðar, í þá jákvæðu átt sem ég hygg að eigi við í tilfelli Kólumbíu.