141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[16:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir framsögu hans með frumvarpi til laga um miðstöð innanlandsflugs. Hér urðu athyglisverðar umræðurnar þegar andsvörin byrjuðu við þingmanninn.

Það er með miklu stolti, frú forseti, að ég sem þingmaður Reykvíkinga er meðflutningsmaður að þessu máli þrátt fyrir að hv. þm. Mörður Árnason hafi fárast yfir því að meira að segja þingmenn Reykvíkinga væru meðflutningsmenn að því. Það er nú svo, frú forseti, að það sem skiptir sköpum til framtíðar er að landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið vinni sem mest saman.

Ég fór vel yfir þá samvinnu sem ég vil sjá í ræðu minni við umræður um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra í þinginu í byrjun hausts: Sameinuð stöndum við, sundruð föllum við. Nú hefur komið í ljós að Samfylkingunni virðist vera mikið kappsmál að koma upp miklu ósætti milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar í þessu máli eins og öðrum, enda er, eins og allir vita, stefna hæstv. forsætisráðherra að fara fram með mál í ófriði en ekki friði.

Skemmst er að minnast að undir stjórn þáverandi borgarstjóra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur var farið af stað með ráðgefandi atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa árið 2001. Var kosningaþátttaka mjög dræm eins og flestir muna, ekki nema rúm 30% höfuðborgarbúa sem tóku þátt í henni og munurinn vart marktækur en samt voru já-atkvæðin örlítið fleiri. Þarna kom kratisminn klárlega í ljós, svo virtist sem Samfylkingin liti á málefni Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni sem einkamál Reykvíkinga en sú kosningabarátta sem drifin var þá af Samfylkingunni byggðist á því að flugvöllurinn ætti að fara burt úr Vatnsmýrinni.

Þetta mál hefur dúkkað upp í kosningabaráttum síðar. Það var merkilegt að fylgjast til dæmis með Ríkisútvarpinu í síðustu borgarstjórnarkosningum, þar var allt kapp lagt á að spyrja þá sem voru í framboði fyrir flokkana hvaða álit þeir hefðu á staðsetningu flugvallarins í Vatnsmýrinni og því máli gerð góð skil. Síðan kom á daginn að það var einungis Samfylkingin sem var áfram um að fjarlægja völlinn, bara eitthvert burt, segir hún. Það á að taka aðra brautina af árið 2016 bara út af því að haldin var ráðgefandi atkvæðagreiðsla um síðustu aldamót og bara vegna þess að þetta er stefna Samfylkingarinnar. Við erum svo óheppin að Samfylkingin stjórnar í borginni ásamt Besta flokknum sem er framlenging af Samfylkingunni og því miður er hún líka í ríkisstjórn. En ég vil hvetja landsmenn til að vera bjartsýna á framhaldið því að kosningar nálgast óðfluga. Það verða alþingiskosningar í vor og borgarstjórnar- og sveitarstjórnarkosningar að einu og hálfu ári liðnu og ef ekki tekst að breyta kúrsinum fyrr en eftir þessar tvær mikilvægu kosningar verðum við að hafa biðlund, virðulegi forseti. Ég bið landsmenn um að hafa þá biðlund.

Hér er komið fram frumvarp til laga um miðstöð innanlandsflugs og hv. framsögumaður Jón Gunnarsson fór ágætlega yfir það af hverju málið breyttist úr þingsályktunartillögu í frumvarp. Það er rétt að geta þess að við erum þrír þingmenn Framsóknarflokksins sem erum meðflutningsmenn á þessu frumvarpi en ásamt mér eru það hv. þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Það er skýrt hvert markmið þessara laga er og kemur fram í 1. gr., það er fyrst og fremst að tryggja tilvist miðstöðvar innanlandsflugs í Vatnsmýrinni vegna tengingar við heilbrigðis-, mennta- og stjórnsýslustofnanir landsins. Við skulum ekki gleyma því að stjórnsýsla landsins er í Reykjavík og hefur má segja ekki bara verið flutt til Reykjavíkur heldur í 101 Reykjavík og er þá Vatnsmýrin ekki langt undan. Staðsetning flugvallarins er ekki bara hagsmunamál þeirra sem koma utan af landi og þurfa að sækja sér heilbrigðisþjónustu, sækja fundi eða eiga samskipti við stjórnsýsluna. Það er skylda okkar sem höfuðborgarbúa að hafa innanlandsflugvöll í höfuðborginni þar sem öll stjórnsýslan er til að aðgangur landsbyggðarfólks sem á erindi í höfuðborgina verði sem greiðastur.

Samfylkingin hefur lengi talað fyrir því að það sé ekkert mál að færa flugvöllinn til Keflavíkur og taka upp hinar svokölluðu almenningssamgöngur. Nú þegar á að almenningssamgönguvæða borgina til næstu tíu ára vegna þess að ríkisstjórnin og Reykjavíkurborg tóku ákvörðun um að leggja ekki framkvæmdafé til borgarinnar heldur nota þann pening í að efla almenningssamgöngur sem virka raunverulega ekki. Það má heldur betur gera stórátak í að virkja þær. Á meðan sitja brýn mál eftir eins og að skapa framtíðarsýn fyrir allt höfuðborgarsvæðið og koma samgöngum þar í lag og gefa borgarbúum kost á fleiri útgönguleiðum af höfuðborgarsvæðinu.

Samgöngumál undir forustu Samfylkingarinnar hjá ríki og borg byggjast á mikilli þröngsýni að mínu mati vegna þess að það er veðjað á einn hest og ekkert lagt til um að byggja upp og nú ætlar hún að taka flugvöllinn af okkur líka og er mjög á móti honum.

Sagan á bak við flugvöllinn í Vatnsmýrinni er mjög merkileg og hana má rekja allt aftur til ársins 1919 þegar fyrsta flugvélin tók þar á loft. Allt til ársins 1937 voru gerðar ýmsar tilraunir með flugrekstur í Vatnsmýrinni en þriggja ára hlé varð milli 1937 og 1940 þegar flugið var rekið frá Akureyri. Reglulegt áætlunarflug frá Reykjavíkurflugvelli hófst í mars 1940 þegar Flugfélag Íslands flutti bækistöðvar sínar frá Akureyri til Reykjavíkur. Þetta snýst því ekki aðeins um mikilvægi þess að hafa flugvöllinn þarna fyrir Ísland eins og það lítur út 2012 heldur er þarna mikil og merkileg saga sem ber að varðveita. Þarna skal byggt upp áfram fái Framsóknarflokkurinn einhverju um það ráðið því að það er á stefnuskrá Framsóknarflokksins að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Andstæðingar þeirrar hugmyndar segja að það sé svo verðmætt og gott byggingarland í Vatnsmýrinni. Ég er ósammála því og tel að þarna séu ekki færðar fram alveg sannar fullyrðingar. Þegar flugvöllurinn var byggður var efni úr Rauðhólum keyrt ofan í flugvöllinn til að byggja undirlag því að þetta er fúamýri, frú forseti, mýri sem er mjög erfitt byggingarland og langt niður á fast. Það eru ein rök til að hrekja þá fullyrðingu að þetta sé dýrmætt byggingarland fyrir höfuðborgina.

Það er líka skemmtilegt að minnast á að í október 1940 lögðu Bretar flugbrautir og hófu flugvallargerð á þessum stað og má segja að að stofni til sé flugvöllurinn nú eins og þá. Þarna eru til dæmis enn þá byggingar síðan herinn var þarna. Það sýnir okkur jafnframt að við þurfum að taka ákvörðun til framtíðar um að flugvöllurinn verði þarna og fara í uppbyggingu þar. Ég get sagt eins og er að það er hrein hörmung að ekki sé komin betri miðstöð þarna eða betri byggingar fyrir komu- og brottfararfarþega því að aðstaðan er ekki til sóma, hvorki fyrir okkur sem þjóð né Reykvíkinga. Útlendingar eru mjög undrandi þegar þeir koma í þessar byggingar. Það er mikil umferð um völlinn og það verður að byggja aðstöðuna upp þegar ákvörðun liggur fyrir. Það þýðir ekki sífellt að slá úr og í og hafa ekki stefnu til framtíðar í svo mikilvægu máli.

Ef við berum saman byggingarnar í Vatnsmýrinni og móttökusalinn í Landeyjahöfn er það tvennt ólíkt. Það sýnir kannski áhersluatriðin, að ekki skuli byggt yfir flugumferð í Reykjavík þar sem farþegafjöldi er svo mikill. En við tökum náttúrlega til við þetta þegar endanleg ákvörðun liggur fyrir.

Hér hefur verið bent á að hér sé verið að ryðjast inn í skipulagsvald Reykjavíkurborgar. Þetta frumvarp er lagt fram vegna þess að ekki hefur náðst að koma aðilum saman til að ræða málin. Málið var komið mjög langt síðastliðið haust og hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson er mjög hrifinn af þeirri hugmynd að hafa flugvöllinn um kyrrt og er fylgjandi henni. Það virtist vera kominn brothættur meiri hluti fyrir málinu þegar við undirritaðir þingmenn málsins lögðum það fram síðast, okkar flokkar voru komnir í meiri hluta með vinstri grænum í þinginu, en þá skyndilega hrökk sá stuðningur til baka. Það sýnir hversu eldfimt og viðkvæmt ástandið er innan ríkisstjórnarflokkana. Ég minni aftur á að við verðum að bíða eftir næstu kosningum.

Það er hreint galið að leggja til að henda flugvellinum í burtu vegna þess að árið 2000 var hafist handa við enduruppbyggingu á flugvellinum og lauk henni 1. nóvember 2002. Allt að 8–10 milljarðar að núvirði voru lagðir í framkvæmdina. Það eru einungis tíu ár síðan. Þeim fjármunum væri algjörlega kastað á glæ ef leggja á niður aðra flugbrautina eins og stefnt er að árið 2016, ég tala nú ekki um að flytja flugvöllinn í heilu lagi. Ef þetta verður staðreyndin er í uppsiglingu mikil sóun á almannafé vegna hugdettu eins stjórnmálaflokks, eins stjórnmálaflokks sem knúði það í gegn að fara með málið í ráðgefandi atkvæðagreiðslu hjá Reykjavíkurborg.

Við horfum upp á þetta á hverjum degi, frú forseti, því miður. Þessi ríkisstjórn kann að sóa peningum í óþurftir. Við horfum nú til 20. október en þá verður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla sem kostar 1,3 milljarða þegar upp er staðið. Þetta er sóun á miklu fé. Við erum með vitavonlaust ESB-umsóknarferli í gangi sem kostar tugi milljarða. Vinstri menn hafa alltaf (Gripið fram í.) kunnað að eyða fé. — Hér kallar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, úr sal að það sé vitleysa að ESB-umsókn kosti tugi milljarða. Ég vil bara minna á að skuldbindingin vegna Þróunarsjóðs EFTA var upp á 8 milljarða þannig að hliðaráhrifin eru svo mikil. (Gripið fram í.) En vinstri menn og talsmenn Evrópusambandsins hér á landi horfa einungis á þröngu myndina, beinan kostnað sem þeir geta bent á en taka ekki tillit til heildarmyndarinnar. (Gripið fram í.) Frú forseti. Hv. þingmaður heldur áfram að tala við sjálfan sig, ég heyri ekki alveg hvað hann er að segja en hann hefur kannski tækifæri til að tala um það úr þessum ræðustól.

Þetta frumvarp er hið besta mál. Eitt sem ég átti eftir að minnast á eru hliðaráhrif þess að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Eins og kemur fram í frumvarpinu er talið að um 1 þús. störf tengist starfsemi flugvallarins og það er ekki lítið fyrir höfuðborgarsvæðið að þarna hafi 1 þús. manns atvinnu í því atvinnuleysi sem nú ríkir. En nei, að sjálfsögðu á að kippa þessu úr sambandi eins og öðru, en það er ekki alveg komið að því. Ég heiti því að við flutningsmenn þessa frumvarps munum fylgja málinu alla leið og festa flugvöllinn í Vatnsmýrinni í sessi til framtíðar og ekki síður að byggja þar upp svo sómi sé að.