141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[17:03]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka framlagningu þessa frumvarps hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Þó að ég sé ekki sammála því þá náum við kannski með tímanum að vinna úr þeirri nánast pattstöðu sem flugvallarmálið er í.

Það er hægt að hafa mörg og löng orð um flugvöllinn í Vatnsmýrinni, hvort hann eigi að fara eða ekki, eins og fram hefur komið í þingsal. Mig langar að benda á nokkrar tölur í sambandi við innanlandsflugið.

Beinn kostnaður úr ríkissjóði við innanlandsflugið á hverju ári eru 2 milljarðar. Það eru um 5.500 kr. á hvern seldan flugmiða, sem ekki kemur fram í verði flugmiðanna. Verðmæti landsins í Vatnsmýrinni, sem eru 130 hektarar, eru um 105 milljarðar kr., metnir á verðlagi ársins 2005, sem er mjög lágt reiknað. (VigH: Hver á að kaupa það?) Af því landi á ríkið 1/3 og borgin um 2/3. Ef borguð væri leiga fyrir landið sem fer undir innanlandsflugið, þ.e. leiguverð sem yfirleitt er tekið af ríkisjörðum og er mjög lágt eða um 3,5% af verðmætamati landsins, ættu að leggjast 4.500 kr. á hvern seldan flugmiða fyrir eignarhlut ríkisins í landinu og 9.000 kr. til viðbótar á hvern seldan farmiða fyrir eignarhlut Reykjavíkurborgar í landinu í Vatnsmýrinni. Sá kostnaður kemur hvergi nokkurs staðar fram í innanlandsfluginu, ekki er rukkuð ein einasta króna fyrir landnotkun í Vatnsmýrinni.

Innanlandsflugið á Íslandi er barn síns tíma. Það var sett af stað með miklum hvelli og mikilli atorkusemi og mikilli nauðsyn vegna þess að vegasamgöngur á Íslandi voru í lamasessi. Það var miklu hagkvæmara að fljúga með fólk hingað og þangað en að fara út í gríðarlegan kostnað við vegalagningu. Það umhverfi hefur að sjálfsögðu gjörbreyst og samgöngur á landi eru orðnar miklu betri í dag. Þess sér stað í minnkandi innanlandsflugi þar sem flogið er á sífellt færri staði án þess að flugvöllurinn fari nokkurn skapaðan hlut. Það er til dæmis ekki langt síðan Flugfélag Íslands hætti að fljúga til Vestmannaeyja vegna þess að Landeyjahöfn var opnuð og fólk notar frekar aðstöðuna sem þar er og keyrir á milli, fer með Herjólfi.

Ég hef talað fyrir flutningi innanlandsflugs til Keflavíkurflugvallar vegna þess að hann er í 30 mínútna fjarlægð frá stærstum hluta höfuðborgarsvæðisins. Það er fullbúin flugstöð þar sem stendur algjörlega ónotuð og var notuð í áratugi sem miðstöð millilandaflugsins. Það eina sem þarf er að taka úr lás þannig að ekki er kostnaður fyrir hendi þar. Ég held að flutningur á innanlandsfluginu til Keflavíkur væri til hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna. Við töluðum um það fyrr í dag að dreifa þyrfti ferðamönnum betur um landið. Það er miklu auðveldara að dreifa þeim betur um landið með því að gefa þeim kost á innanlandsflugi beint út á land þegar þeir lenda hér á landi en að fara með þá fyrst til Reykjavíkur og láta þá gista hér eina eða tvær nætur. Það eru því ýmis rök fyrir því að færa flugvöllinn til Keflavíkur. Ég mundi samt ekki gera athugasemd við að flugvöllurinn yrði færður annað á höfuðborgarsvæðinu og byggður nýr flugvöllur þó að það væri auðvitað gríðarlegur kostnaður samfara því.

Í máli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur kom fram að mikil umferð sé um flugvöllinn. Það er lítil umferð um flugvöllinn. Um þúsund manns fara í áætlunarflugi um Reykjavíkurflugvöll á dag, á 130 hekturum lands. Það eru jafnmargir og Café París afgreiðir á hverjum degi hérna hinum megin við Austurvöll, þannig að það er ekki góð nýting á landi sem er mjög dýrt. Við verðum einfaldlega að sætta okkur við það, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og mér líkar það ekki, að Ísland er orðið borgríki í landfræðilegum skilningi, því miður, því að ég tel mjög mikilvægt að hafa byggð um allt land. Einu löndin í heiminum þar sem stærra hlutfall íbúa er saman komið á jafnlitlu svæði eru Hong Kong og Singapúr. Ísland er í þriðja sæti á heimsvísu hvað það varðar

Ég styð því að sjálfsögðu áframhaldandi innanlandsflug með einum eða öðrum hætti, hvort sem það yrði þá frá Keflavík eða frá Hólmsheiði, en við verðum að horfast í augu við raunveruleikann þegar við tökum ákvarðanir í þá veru. Hagsmunir Reykvíkinga og íbúa alls höfuðborgarsvæðisins í þessu máli eru alveg gríðarlegir og þeir liggja í því að byggð verði íbúðabyggð á flugvallarsvæðinu. Útþensla Reykjavíkurborgar og umferðin og biðin sem er samfara því kostar alveg gríðarlega fjármuni. Það er til dæmis talið að samanlagður aksturskostnaður á ári á höfuðborgarsvæðinu með rekstri bifreiða og bið sé um 200 milljarðar kr. Nýtingarauki í Vatnsmýrinni mundi draga úr akstri á höfuðborgarsvæðinu um 20% miðað við að samsvarandi byggð yrði byggð til dæmis í Úlfarsárdal. Bara það eitt eru 2 milljarðar á hverju ári fyrir utan það sem mundi fást fyrir landið ef það væri selt og margt fleira.

Hægt er að hafa mjög langt og mikið mál um flugvöll í Vatnsmýrinni en tölulegu staðreyndirnar skipta máli, það er allt of dýrt, bæði fyrir höfuðborgarsvæðið og landið allt, að halda áfram með innanlandsflug í Vatnsmýrinni af því kalíberi sem það er nú. Það borgar sig ekki. Það er ekki rétt sem fram kom í máli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur áðan að Vatnsmýrin sé mýri sem ekki sé hægt að byggja á, stór hluti Reykjavíkur er byggður á mýri, hér er meira að segja byggð í Norðurmýri og Sogamýri og Kleppsmýri og fleira. (Gripið fram í: Mýri.) Já, jafnvel.

Vonandi verður umfjöllunin til þess að menn átti sig á því með tímanum að það þarf að færa flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar á það að gerast eftir rúmlega þrjú ár, alla vega önnur flugbrautin. Það er langbest að menn nái samkomulagi um það með nægum fyrirvara að innanlandsflugið verði flutt til Keflavíkur og verði frá þeirri flugstöð sem þar er og stendur ónotuð í um hálftíma fjarlægð frá stærstum hluta höfuðborgarsvæðisins.

Höfuðborgarsvæðið frá Hvítá í Borgarfirði til Hvítár í Ölfusi (Gripið fram í.) er í rauninni eitt atvinnusvæði og má líta á allt það landsvæði sem eitt atvinnusvæði. Með auknum og betri samgöngum á vegum úti samþættist það líka innanlandsfluginu og leiðir til þess að menn fara að hugsa rökréttar um samgöngur um allt land. 20/20 Sóknaráætlun, sem samþykkt var hér í hittiðfyrra fjallar til dæmis mjög mikið um það. Hún er mjög góð og heildstæð áætlun sem tekur á samgöngumálum landsins í heild sinni.

Það er ágætt að fá þetta mál á dagskrá. Það er miklu viðameira og mikilvægara en svo að hægt sé að afgreiða það eingöngu með því að taka skipulagsvaldið af höfuðborgarsvæðinu í þessu máli og elta ólar við hugmyndir manna um flugvöll í Vatnsmýrinni til frambúðar. Það er einfaldlega allt of dýrt og allt of vitlaust að halda áfram með flugvöllinn á þeim stað.