141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[17:53]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp fyrst og fremst til að lýsa yfir stuðningi við þetta þingmál hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Ég tel að það sé hluti af skyldum höfuðborgar að hér sé þjónustuflugvöllur fyrir landið allt, fyrir innanlandsflugið, fyrir sjúkraflugið, fyrir allt þjónustuflug. Við vitum líka að sérfræðingar í hinum ýmsu málefnum eru staðsettir hér í Reykjavík, öll opinber þjónusta. Við vitum að margir af þessum sérfræðingum munu taka þátt í og koma að sérfræðistörfum á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum og víðar, Vestmannaeyjum og gagnkvæmt. Þetta getur því aðeins átt sér stað að slíkar samgöngur séu greiðar. Reykjavíkurflugvöllur hefur reynst stuðla að því.

Það sem helst hefur staðið í vegi fyrir því að hægt væri að byggja upp og styrkja þessa þjónustu eru stöðugar deilur. Menn hafa dregið lappirnar í því að treysta þjónustumiðstöðina, samgöngumiðstöðina, aðstöðuna, búnaðinn til að hægt sé að gera þetta sómasamlega. Verið er að tala um sátt, sátt sem byggist á því að koma í veg fyrir eðlilega uppbyggingu á þjónustu á Reykjavíkurflugvelli.

Ég spyr hv. þingmann: Liggja ekki fyrir ályktanir Vestfirðinga, Norðlendinga, Austfirðinga, Sambands íslenskra sveitarfélaga? Hverjir ættu að koma að þessari ákvörðun? Ég minni á að það er nú einu sinni ákvörðun að hér skuli vera höfuðborg og við erum stolt af því en þá verður hún líka að axla þá ábyrgð sem hvílir á herðum höfuðborgar.