141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst alveg sjálfsagt að takmarka eitthvað umferð um Reykjavíkurflugvöll, sérstaklega á ákveðnum tímum sólarhringsins eins og gert hefur verið. En það er bara ekki rétt að tala um áhættusamt ferjuflug. Það hefur ekki sýnt sig að vera verulega áhættusamt flug. Og að tala um að einkaflug, herflug og flugsýningar séu einhverjir áhættuþættir í flugvallarstarfsemi — í því flugi er fylgt öllum ýtrustu öryggisreglum. Það hefur ekki sýnt sig vera einhver áhættuþáttur í aukinni slysatíðni. Það er einfaldlega þannig.

Millilandaflugið fór á sínum tíma. Það var eðlilegt enda ör þróun í því og mikil umferð sem fylgdi því. En að ætla að takmarka umferð bara við sjúkraflug, neyðarflug og áætlunarflug og banna þar með einkaflug og þess háttar hefur mikinn kostnað. Það hefur til dæmis mikinn kostnað í för með sér að færa allt kennsluflug til Keflavíkur, ef við viljum fara með það þangað, þannig að það þarf að skoða alla fleti á málinu. Varðandi kennsluflug lærði ég sjálfur að fljúga á Reykjavíkurflugvelli. Ég man ekki eftir mörgum óhöppum sem hlotist hafa þar þó að þau verði auðvitað þar eins og alls staðar. Þau verða líka þegar við förum í ökutíma.

Áðan var rætt um hlutverk Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar og var gert lítið úr því. Það þarf ekki annað en að skoða staðreyndir í málinu. Ég legg ekki annað á borð en staðreyndir.

Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Það breytist ekki með Egilsstaðaflugvelli, það er bara svo einfalt. Það þarf ekki annað en hringja í einn flugstjóra hjá millilandaflugfélagi okkar til að fá upplýsingar um hversu oft flugmenn nota Reykjavíkurflugvöll sem skráðan varaflugvöll fyrir flug sitt. Það er bara af því að aðstæður (Forseti hringir.) og brautirnar eru það góðar, flugvöllurinn býður upp á það. Það er einfaldlega þannig.