141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[18:07]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að benda á misskilning sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, þ.e. að menn séu sammála um að flugvöllurinn eigi ekki að fara úr Vatnsmýrinni árið 2016. Það var alls ekki það sem ég heyrði í dag. Ég heyrði að menn vilji ná sátt um málið miðað við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur og miðað við að innanlandsflugið þurfi að fara eitthvert annað, að það verði þá vel staðið að því.

Ég hef ekkert á móti innanlandsflugi en það verður engin sátt um það, eins og hv. þingmaður segir, ef það á að negla það niður í upphafi að flugið verði ekki fært úr Vatnsmýrinni. Það er Vatnsmýrin sem málið snýst um og hvort sem innanlandsflugið fer til Keflavíkur, sem er langhagkvæmasta lausnin, eða eitthvert annað á höfuðborgarsvæðinu, og ef menn reikna inn í dæmið þann gríðarlega kostnað sem fylgir því að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni er það alveg borðleggjandi að hann þarf að fara. Það eru líka ákveðnar öryggisástæður fyrir því. En innanlandsflugið er barn síns tíma og þjónar ekki lengur því mikilvæga hlutverki sem það gerði áður fyrr. Menn þurfa að viðurkenna þá staðreynd og reyna svo að taka á málinu vonandi í meiri sátt en verið hefur því að þetta er mjög mikilvægt mál fyrir alla landsmenn.