141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

miðstöð innanlandsflugs.

120. mál
[18:09]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nokkuð langt í að við getum náð saman, ég og hv. þm. Þór Saari, í þessu máli þó að hann hafi byrjað fyrri ræðu sína í kvöld á því að segja að það væri kannski ekki svo langt á milli okkar.

Í fyrsta lagi er ég algerlega ósammála því að innanlandsflug sé barn síns tíma og þjóni ekki því mikilvæga hlutverki nú sem það þjónaði áratugum saman. Ég held að innanlandsflugið sé okkur ekki síður mikilvægt í dag þótt áherslurnar hafi vissulega breyst og að mikilvægi þess sé annað en það var. En nú gerum við kröfur um að komast hratt á milli staða og að hafa aðgang að alls konar þjónustu sem ekki voru ýtrustu kröfur um fyrir einhverjum áratugum. Þess vegna er hlutverk innanlandsflugsins gríðarlega mikilvægt.

Þegar ég segi að það sé kannski ekki svo langt á milli margra sem talað hafa í umræðunni vitna ég í þau ummæli sem fram komu hjá nokkrum hv. þingmönnum. Þeir gera sér grein fyrir því að við erum runnin út á tíma varðandi það að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni 2016 og sjá það að setjast þarf yfir málið af yfirvegun og skoða alla fleti og þá möguleika sem við höfum til að mæta breyttum kröfum. Ég er sammála því, það er nákvæmlega það sem við eigum að gera. En við eigum þá að viðurkenna að völlurinn mun ekki fara alveg á næstu árum. Það getur vel verið að við getum breytt skipulaginu aðeins og mætt kröfum um aukið lóðaframboð á svæðinu. Ég held að hægt sé að gera það og hefur verið sýnt fram á það í mörgum tillögum, en í grundvallaratriðum á flugvallarstarfsemin að vera hér. Við erum komin á endastöð varðandi þá þjónustu sem veitt er á þessum velli. (Forseti hringir.) Það verður að fara að byggja hér upp fyrir farþega og starfsfólk til að efla starfsemina. Það er hluti af því að horfast í augu við veruleikann og vandamálin að við segjum (Forseti hringir.) að völlurinn verði hér til þess tíma, að það sé hægt.