141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta.

9. mál
[18:13]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta. Að þessu máli stendur allur þingflokkur framsóknarmanna og er þetta eitt af áherslumálum okkar á þessu þingi.

Baráttan við verðtrygginguna og hvernig við getum náð að draga úr vægi hennar hefur verið okkar helsta baráttumál allt þetta kjörtímabil. Við teljum okkur svo sem hafa áorkað einhverju en með þessu frumvarpi komum við fram með tillögur um aðgerðir sem við teljum nauðsynlegt að fara í til að ná því markmiði okkar að draga verulega úr vægi verðtryggingar og helst að verðtryggð lán til neytenda muni nánast ekki lengur þekkjast á Íslandi.

Þetta er í annað sinn sem við leggjum þetta mál fram. Við bundum miklar vonir um að samstaða næðist innan efnahags- og viðskiptanefndar um sameiginlegar tillögur eða frumvarp allra þingflokka og lögðum hugmyndir okkar í það púkk á síðasta þingi, en því miður náðist ekki samstaða um eina einustu tillögu innan nefndarinnar. Því varð úr að við ákváðum að leggja fram þetta frumvarp.

Það hefur líka verið eitt af okkar helstu baráttumálum á þessu kjörtímabili að skipuð yrði sérstök verðtryggingarnefnd sem hefði það hlutverk að leita leiða til að draga úr vægi verðtryggingar. Ég var skipuð formaður þeirrar nefndar af þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Í niðurstöðu nefndarinnar, svo ég fái að nefna helstu tillögurnar sem menn náðu saman um og það sem kom síðan fram í sérálitum nokkurra, var lögð áhersla á eftirfarandi þætti:

1. Að forsenda þess að ná tökum á verðbólgu væri ábyrg stjórn efnahagsmála. Því lögðum við mikla áherslu á að bæta hagstjórn og auka virkni peningastefnunnar með upptöku þjóðhagsvarúðartækja, það sem á ensku er kallað „macro-prudential tools“, með leyfi forseta.

2. Að tryggja þyrfti fjölbreyttara framboð á óverðtryggðum lánum og skuldabréfum. Hluti af því væri útgáfa ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs á óverðtryggðum skuldabréfum og Íbúðalánasjóður byði upp á óverðtryggð húsnæðislán.

3. Að hvatt yrði til sparnaðar vegna kaupa á fasteign og búseturétti.

4. Að efla yrði fjármálalæsi almennings, upplýsingamiðlun við sparnað og lántöku, og neytendavernd til að sporna við ofskuldsetningu og áhættu tengdri ólíkum lánaformum.

Eins og ég nefndi voru sérálitin þrjú og í því séráliti sem ég stóð að ásamt Arinbirni Sigurgeirssyni, Hrólfi Ölvissyni og Lilju Mósesdóttur voru lagðar til frekari aðgerðir til að draga varanlega úr vægi verðtryggingar og tryggja fjármálalegan stöðugleika samhliða. Þær tillögur vegna núverandi lána voru að setja 4% þak á hækkun verðtryggingar á ársgrundvelli og lækka raunvexti, m.a. með endurskoðun á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna. Tillögur vegna nýs húsnæðislánakerfis og almennar aðgerðir voru að hefja innleiðingu óverðtryggðs húsnæðislánakerfis, og horfum við þá sérstaklega til Danmerkur, fjölga búsetuformum í samræmi við það sem þekkist í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi, bæta efnahagsstjórn, endurskoða fyrirkomulag lífeyrissparnaðar, hvetja til sparnaðar og bæta fjármálalæsi og neytendavernd.

Alþingi hefur þegar brugðist við hluta af tillögum verðtryggingarnefndar með því að heimila Íbúðalánasjóði að veita óverðtryggð lán á breytilegum vaxtakjörum, í samræmi við tillögur nefndarinnar. Ég hef sjálf flutt frumvarp um skattafslátt vegna húsnæðissparnaðar sem var lagt fram á 140. löggjafarþingi og aftur á þessu þingi. Flutningsmenn voru úr fjórum þingflokkum auk óháðra þingmanna. Síðan var þingsályktunartillaga samþykkt hér á þingi um að úttekt yrði gerð á neytendavernd á fjármálamarkaði. Vonandi sér hún dagsljósið sem allra fyrst vegna þess að ég held að almennt hafi tilfinning neytenda á Íslandi verið sú að vernd þeirra gagnvart fjármálaafurðum hafi verið afleit.

Það er afstaða okkar sem stöndum að þessu máli að breytt fyrirkomulag verðtryggingar á Íslandi sé í raun nauðsynlegt til að tryggja stöðugleika. Að breyta fyrirkomulaginu er ekki ógnun við fjármálalegan stöðugleika heldur nauðsyn, það er nauðsynlegt að gera þessar breytingar til að tryggja meiri stöðugleika. Allt annað væri ávísun á áframhaldandi þjóðhagslegt ójafnvægi og uppgjöf í baráttunni við verðbólguna

Segja má að meginþorri almennings á Íslandi sé sammála þessu. Í rannsókn sem unnin var af Capacent Gallup fyrir Hagsmunasamtök heimilanna kom fram að 80% svarenda voru hlynnt afnámi verðtryggingar. Í könnun Íbúðalánasjóðs árið 2010 um viðhorf til húsnæðismála kom fram að 66,3% settu afnám verðtryggingar í 1.–3. sæti um þætti sem væri brýnast að ná fram til að bæta húsnæðiskjör fólks í dag.

Í þessu frumvarpi leggjum við til að komið verði á þessum umbótum sem tryggja að allir — ekki bara skuldarar þessa lands heldur allir — beri sameiginlega ábyrgð og hafi hagsmuni af lágri verðbólgu. Að auki grípum við til aðgerða og gerum nauðsynlegar lagabreytingar til að tryggja meiri skilvirkni í efnahagsstjórninni og aukum fræðslu og samkeppni um neytendalán. Hins vegar verður einnig að taka tillit til þess að enn þá er fjöldi heimila í greiðsluerfiðleikum og afnám verðtryggingar gæti leitt til þyngri greiðslubyrði.

Í frumvarpinu leggjum við því til að sett verði þak á hámarkshækkun verðtryggingar í því markmiði að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi og draga úr vaxtakostnaði og skuldsetningu heimilanna. Við leggjum til að óheimilt verði að hækka gjöld eða tekjur ríkissjóðs á grunni almennrar verðlagsþróunar, samanber vísitölu neysluverðs, nema sérlög eða samningar liggi þar að baki, að grundvöllur ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna verði endurskoðaður, Seðlabanka Íslands verði falið að setja lánastofnunum reglur um verðtryggingarjöfnuð, settar verði reglur um hámark veðhlutfalls og lengd lánstíma fasteigna og lóða og að fjármála- og efnahagsráðherra vinni frumvarp um stjórn efnahagsmála sem feli í sér tillögur að fleiri og ríkari heimildum til stjórnunar efnahagsmála, þ.e. hin svokölluðu þjóðhagsvarúðartæki, meðal annars fyrir Seðlabanka Íslands.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gildistakan verði við samþykkt frumvarpsins en jafnframt að lögin taki til neytendasamninga sem þegar hafa verið gerðir. Við teljum nauðsynlegt að kveða skýrt á um þetta. Við viljum að byrðum af vísitöluhækkunum sé skipt og enn fremur að ekki sé gengið of langt, og leggjum því til að sett verði 4% hámark á verðtrygginguna. Reynslan hefur nefnilega sýnt að vísitala síðustu 20 ára hefur farið um það bil átta sinnum yfir 4% ársverðbólgu. Þak upp á 4% ársverðbólgu hefði þannig leitt til 3,5% raunávöxtunar af láni með 5,1% fastavexti á því tímabili.

Ég vil bæta við að fordæmi eru fyrir þaki á hækkun verðbóta með lögum nr. 72/1972, en með þeim var að vísu sett 7,75% þak á hækkun verðtryggingar á húsnæðislán.

Það má líka benda á dómafordæmi. Í dómi Hæstaréttar nr. 53/1990 er bent á að gera má ráð fyrir að breyting kunni að verða á grundvelli og/eða útreikningi verðtryggingar, nema fyrirvari sé gerður um annað í lánssamningum. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 er bent á að breyting eða uppgjör á lánssamningi verði að vera til framtíðar líkt og hér er lagt til.

Við teljum því að hér sé gætt meðalhófs og það verði aukinn hvati fyrir lánveitendur að hætta að veita neytendum verðtryggð lán auk þess sem þetta mun stuðla að því sem við teljum nauðsynlegt; að jafna út byrðar verðbólgu og hjálpa okkur stjórnmálamönnunum og stjórnvöldum að ná stjórn á efnahagsmálunum, og ekki veitir af, ég held að við séum öll sammála um það.

Ég ætla að fara í gegnum greinar frumvarpsins. Í 1. gr. er lagt til að sett verði þak á hækkun verðtryggingar á ársgrundvellli fyrir neytendur. Ársgrundvöllur er skilgreindur sem viðmið við breytingar á vísitölu hverju sinni síðustu tólf mánuði við útreikning hvers gjalddaga. Hluti verðtryggingar skal því aukast að hámarki um 4% á ársgrundvelli á hverjum gjalddaga miðað við viðmiðunarvísitölu sem er vísitala neysluverðs samkvæmt lögunum. Með þessu er einfaldlega reiknuð hækkun vísitölu miðað við verðlag hennar tólf mánuðum áður og skiptir þá engu hvort afborgun er mánaðarleg, ársfjórðungsleg, hálfsársleg eða árleg. Sé munur meiri en 4% á milli tímabila hækkar höfuðstóllinn einfaldlega að hámarki um 4%. Gildir þetta um allar skuldbindingar neytenda sem hafa verið verðtryggðar. Þannig er einnig komið til móts við sjónarmið um að neytendur geti gert sér grein fyrir árlegri hlutfallstölu kostnaðar, samanber lög um neytendalán, nr. 121/1994.

Ég vil taka fram að ég held að það verði mjög áhugavert fyrir okkur þingmenn að fylgjast með þeim málaferlum sem nú eru að hefjast til að fá úr því skorið hvort það fyrirkomulag sem hér hefur ríkt varðandi verðtryggð lán uppfylli skuldbindingar okkar gagnvart EES-samningnum sem við höfum verið að innleiða, m.a. í gegnum lög um neytendalán.

Í 2. gr. er lagt til að lántaka með neytendalán verði heimilt að breyta verðtryggðu láni í óverðtryggt. Jafnframt er lagt til að lánveitanda verði óheimilt að krefjast lántökukostnaðar vegna breytingarinnar, innborgunar á höfuðstól til að lækka hann eða meira veðrýmis á óverðtryggða láninu en var á því verðtryggða við breytinguna. Markmið þessarar breytingar er að draga úr vægi verðtryggingar og neytendalánum og auðvelda neytendum að breyta verðtryggðum lánum sínum í óverðtryggð.

Við teljum að mjög brýnt sé að setja ákvæði inn, þó að það sé með endurskoðunarákvæði til 1. nóvember 2014, því borið hefur við að fjármálafyrirtæki hafi gert þessar kröfur til lántaka þegar þeir hafa viljað breyta lánum sínum. Þarna viljum við tryggja að gætt sé að rétti fólks við þessa breytingu.

Í 3. gr. er lagt til að óheimilt verði að breyta tekjum og gjöldum í frumvarpi til fjárlaga á grunni almennrar verðlagsþróunar, samanber vísitölu neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda. Ákvarðanir um hækkanir verður að rökstyðja á grundvelli raunverulegra kostnaðarhækkana í viðkomandi rekstri en ekki almennra verðlagshækkana. Dæmi um raunverulegar kostnaðarhækkanir geta verið umsamdar launahækkanir starfsmanna, hærra innkaupsverð vara sem nýttar eru í rekstrinum, hækkun á rafmagni og hita o.s.frv. Breytingin mundi þannig styðja við bætta efnahagsstjórn, draga úr sjálfkrafa hækkunum í samfélaginu og styðja við verðbólgumarkmið peningastefnunnar. Undantekningar varða skuldbindingar ríkisins sem komið hefur verið á með sérlögum eða samningum ríkisins.

Í 4. gr. er lagt til að ráðherra skipi nefnd til að endurskoða lög og reglugerð um lífeyrissjóði er varða samspil ákvæða um tryggingavernd og almennar tryggingafræðilegar forsendur sem tryggingafræðileg athugun byggist á. — Ég er ekki viss um að við skiljum öll nákvæmlega hvað þessi setning þýðir en þarna er verið að tala um hina svokölluðu ávöxtunarkröfu sem er notuð við núvirðingu framtíðariðgjalda og væntanlegs lífeyris sjóða og raunvexti sem athugunin byggist á, hin margumtöluðu 3,5% sem hafa verið einhvers konar viðmið hjá lífeyrissjóðunum. Lagt er til að nefndin skoði sérstaklega áhrif laganna og reglugerðarinnar á markaðsvexti og hegðun markaðsaðila. Lagt er til að nefndin skili ráðherra skýrslu ásamt tillögum um nýja reglugerð og lagabreytingar fyrir 1. maí 2013.

Við teljum þessa grein vera lykilatriði í því að skoða hvernig stendur á því að þrátt fyrir að sparnaður, þó að hann sé lögbundinn, hafi aukist mjög mikið á Íslandi, virðist vera ákveðin innbyggð tregða til að lækka vexti og það þrátt fyrir aukið framboð á fjármagni innan lands.

Í 5. gr. er lagt til að Seðlabanki Íslands setji lánastofnunum reglur um verðtryggingarjöfnuð og hámark á hlutfall veðlána og lengd lánstíma vegna kaupa á fasteignum og lóðum í þeim tilgangi að bæta efnahagsstjórn. Verðtryggingarjöfnuður fjármálastofnana, eins og okkur hefur verið bent ítarlega á í fjölmiðlum undanfarna daga, hefur svo sannarlega ekki hvatt lánastofnanir til að styðja við verðbólgumarkmið Seðlabankans og peningastefnu stjórnvalda. Þetta sáum við í aðdraganda hrunsins og þetta erum við að mínu mati að sjá aftur nú.

Samkvæmt frétt á Vísi í dag er verðtryggingarmisvægi viðskiptabankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, um 208 milljarðar kr. Þetta eru upplýsingar sem koma fram í fjármálastöðugleikariti Seðlabankans. Það þýðir einfaldlega að verðtryggðar eignir bankanna voru meiri en verðtryggðar skuldir þeirra sem nemur ofangreindri tölu. Verðtryggðar skuldir eru eins og innlánin hjá þeim og verðtryggðar eignir eins og útlánin. Mesta misvægið er hjá ríkisbankanum Landsbankanum, eða 73% af eiginfjárgrunni, hjá Arion banka er það 32% af eiginfjárgrunni og hjá Íslandsbanka 6% að eiginfjárgrunni. Þetta misvægi þýðir einfaldlega að bankarnir eru að hagnast á verðbólgu. Ef horft er til síðustu tólf mánaða hefur hagnaður bankanna, vegna þessa misvægis, numið 8,9 milljörðum.

Á sama hátt og settar voru ákveðnar reglur um gjaldeyriseignir, eignir sem eru í öðrum myntum hjá fjármálafyrirtækjunum, að þar sé jafnvægi á milli eigna og skulda, er með þessu verið að segja að Seðlabankinn þurfi að móta sambærilegar reglur um jöfnuð á milli þessara tveggja þátta þannig að bankarnir hafi engan hag af verðbólgu. Þeir taki þátt í baráttunni með okkur öllum hinum að berjast gegn verðbólgu og tryggja stöðugleika. En eins og staðan er núna hagnast bankarnir á verðbólgunni. Það er fullkomlega óásættanlegt að jafnmikilvægir markaðsaðilar hafi beinan hagnað af verðbólgu í stað þess að styðja við markmið Seðlabankans og styðja við stjórnvöld í baráttu þeirra. Síðan horfa heimili landsins upp á það um hver einustu mánaðamót að lánin þeirra bólgna út.

Í 5. gr. er einnig lagt til að settar verði samræmdar reglur um hámarkshlutfall veðlána og lánstíma hjá öllum þeim sem veita lán til kaupa á fasteignum og lóðum. Til hliðsjónar gætu verið dönsk lög um fasteignalán. Eins og bent var á í mjög ítarlegri og áhugaverðri skýrslu frá Samtökum fjármálafyrirtækja um verðtrygginguna og hin svokölluðu Íslandslán, eins og verðtryggðu jafngreiðslulánin eru nefnd þar, þyrfti að taka tillit í reglunum til hugsanlegra áhrifa verðbólguskota á veðrými fasteigna á meðan við erum enn þá með svona hátt hlutfall af verðtryggðum lánum. Með þessu væri líka hægt að draga úr hvata lántakenda til að taka verðtyggð lán. Eins og þau hafa verið sett upp á Íslandi hafa verðtryggðu lánin verið með lægstu mánaðarlegu greiðslubyrðina en að sama skapi gengur mjög hægt að borga niður höfuðstólinn og skuldina. Fólk hefur í raun horft upp á peningana sem það hefur lagt í fasteign sína gufa upp í þessum sveiflum.

Um 6. gr. má segja að þar sé verið að hvetja stjórnvöld til að koma fram með frumvarp til laga um stjórn efnahagsmála til að ná betri stjórn á þeim. Seðlabankinn hefur margítrekað í mörgum ritum bent á að hann þurfi fleiri stjórntæki en stýrivexti til að geta náð verðbólgumarkmiðum sínum. Hér er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra vinni frumvarp um þjóðhagsvarúðartæki sem lagt verði fyrir Alþingi fyrir 1. maí 2013.

7. gr. er gildistökuákvæði. Þar kemur fram að lögin taki til neytendasamninga sem hafa þegar verið gerðir verði frumvarpið að lögum.

Að umræðu lokinni viljum við gjarnan að málið fari til efnahags- og viðskiptanefndar. Við vonum svo sannarlega að nefndin taki það til umfjöllunar og nái samstöðu um þó ekki væri nema hluta af tillögum okkar. Það var að mínu mati mjög sorglegt að menn skyldu ekki geta náð samstöðu um eitt einasta atriði í nefndinni, en hér leggjum við fram nokkrar tillögur sem við teljum að muni skipta heimilin í landinu verulegu máli. Við teljum okkur koma til móts við þær óskir sem hafa komið fram hjá Seðlabankanum varðandi fjölmörg atriði sem hér koma fram. Þetta er að okkar mati stórmál. Þegar maður hittir fólk og ræðir við kjósendur hringinn í kringum landið, íslenskan almenning sem er að bogna undan skuldum sínum og lánum, heyrir maður ítrekað að lykilatriði sé að við tökum á verðtryggingunni og tryggjum lægri vexti á Íslandi. Þetta er framlag okkar framsóknarmanna hvað það varðar.