141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta.

9. mál
[18:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir framsöguna í þessu máli, um frumvarp til laga um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta. Eins og fram kom í framsöguræðunni stendur þingflokkur Framsóknarflokksins einhuga að málinu. Þetta er okkar innlegg í hina réttu stefnu nú sem endranær til að leiðrétta hag heimilanna.

Það hefur komið fram að frumvarpið er lagt fram í annað sinn. Að mínu mati verður það að samlesast við annað frumvarp sem við framsóknarmenn höfum lagt fram, allur þingflokkurinn. Fyrsti flutningsmaður þess frumvarps er formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, en það snýst um skattafslátt við greiðslu á húsnæðislánum. Er það einstakt frumvarp við hliðina á því frumvarpi sem hér er til umræðu. Ákvæði þess frumvarps eiga að gilda í þrjú ár. Það frumvarp og þetta frumvarp, um 4% þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta, vinna saman í þrjú ár. Það veitir þeim sem hafa verðtryggð lán skjól þar til endanleg niðurstaða er komin í það hjá dómstólum hvort verðtrygging neytendalána og þar með íbúðalána sé flókinn afleiðusamningur sem sé þá ógildur samkvæmt íslenskum rétti, þ.e. eigi einstaklingur í hlut.

Nú þegar hefur slíkt mál verið lagt fram í Héraðsdómi Reykjavíkur og á að taka það fyrir 18. október að því er mig minnir. Það mál er farið á skrið, fordæmisgefandi mál, en við verðum að hafa biðlund til að dómstóllinn geti úrskurðað í því. Eins og við vitum er mikill fjöldi mála fyrir dómstólum, en talandi um þriggja ára skjól, að þessi tvö frumvörp mundu virka þar saman, þá ættu að minnsta kosti að þremur árum liðnum að vera komin úrslit í það dómsmál. Sama hvernig þetta mál fer fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þá verður því örugglega áfrýjað til Hæstaréttar vegna hagsmunanna sem liggja að baki. Jafnvel má sjá það fyrir sér að fleiri dóma þurfi til að kveða upp úr um það hvort verðtryggingin sé flókinn afleiðusamningur.

Að öllum líkindum þarf að leita ráðgefandi álits hjá ESA þegar þetta dómsmál er tekið fyrir. Þetta snertir Evrópurétt og hefur mikið fordæmisgildi í för með sér. En þess ber að geta að á Spáni féll dómur fyrir nokkrum missirum sem heimfæra má upp á verðtrygginguna hér á landi og þá hafði neytandinn betur. Því þarf að láta reyna á þetta fyrir íslenskum dómstólum til að leiðrétta réttarstöðuna og greiða úr réttaróvissu sem virðist hafa sprottið upp á grunni þessa spænska dóms.

Hv. framsögumaður, Eygló Harðardóttir, fór svo ítarlega yfir frumvarpið að ég sé ekki ástæðu til að bæta neinu við varðandi það. Ég ætlaði að fara í 5. gr., um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands varðandi verðtryggingarjöfnuðinn, því að þetta mál kom fram á fyrra þingi og þá var þessu ekki veitt athygli. En nú hafa Seðlabanki Íslands og jafnframt Landsbankinn viðurkennt að verðtryggingarjöfnuður sé með þeim hætti sem segir í frumvarpinu. Hann þarf að rétta af eins og flutningsmaður frumvarpsins fór yfir og því er tímabært að þetta ákvæði í seðlabankalögunum sé skoðað að þessu leyti.

Oftar en ekki höfum við framsóknarmenn komið fram með glimrandi tillögur sem ekki fást ræddar í þinginu en hafa svo löngu síðar verið viðurkenndar, og þar með staðfest að við höfum haft rétt fyrir okkur. Svona er víst að vera í stjórnarandstöðu en óskandi væri að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu tekið meira mark á öllum góðum tillögum okkar framsóknarmanna hér í þinginu. Þá væri líklega öðruvísi um að litast hér á landi og er ég þá sérstaklega að vísa í 20% leiðina sem við lögðum til árið 2009 en ekki var hlustað á.

Það er fortíðin, frú forseti. Við erum hér til að ræða framtíðina og horfa til framtíðar. Liðið er liðið. Við breytum ekki fortíðinni en við getum haft áhrif á nútíðina og sérstaklega framtíðina. Við framsóknarmenn í þinginu höfum ætíð lagt fram góðar tillögur og höldum áfram að leggja fram góðar tillögur sem hjálpa heimilum landsins að rísa á ný og koma þeim á þann stað sem þau verða að vera á.

Þetta er hluti af því, frú forseti, og komum við til með að fylgja þessu máli fast eftir. Þetta er það sem verið er að bíða eftir. Samkvæmt öllum dómafordæmum hafa þeir sem eru með gengistryggð lán að öllum líkindum fengið leiðréttingu en hópurinn sem er með verðtryggð lán hefur ekki borið neitt úr býtum enn varðandi það sem gerðist hér á haustdögum 2008. Þetta er skref í þá átt að koma til móts við það fólk sem stendur í þeim sporum. Ég trúi ekki öðru en hæstv. ríkisstjórn taki undir með okkur framsóknarmönnum, taki þessi tvö mikilvægu mál sem liggja hér fyrir frá okkur og vinni að því að bót fáist í þessu og úrbætur.