141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli þingmanna á nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagsástandið í heiminum. Í skýrslunni er viðurkennt að efnahagsáætlun eins og sú sem AGS keyrði í gegn með stuðningi ríkisstjórnarflokkanna og Sjálfstæðisflokksins sé kreppudýpkandi.

Efnahagsáætlun AGS sem ég varaði við strax í október 2008 fól í sér allt of hátt vaxtastig og of hraðan niðurskurð á 200 milljarða halla. Sultarólina átti ekki að herða jafnmikið og gert var eftir hrun þar sem illa gekk að fá bankana til að afskrifa tapaðar skuldir heimila og fyrirtækja. Kreppudýpkandi efnahagsstefna dregur úr efnahagsbatanum sem fylgir í kjölfar bankahruns og lífskjör verða því verri og skuldir hins opinbera hærri en ella.

Frú forseti. Þessum skilaboðum reyndum við hv. þingmenn Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason að koma á framfæri þegar við sátum hjá við afgreiðslu fjárlaga í desember 2010 en vorum sökuð um að gera lítið úr fjárlaganefnd og beðin um að íhuga stöðu okkar í stjórnarliðinu.

AGS ráðleggur núna lausbeislaða peningamálastefnu sem mundi krefjast vaxtalækkunar og afnáms verðtryggingar hér á landi. Auk þess leggur AGS áherslu á að tapaðar skuldir í bankakerfinu verði afskrifaðar en ríkisstjórnin kaus frekar langdregið dómsmálaferli.

Að lokum varar AGS við of hröðum niðurskurði ef vextir eru of háir og tapaðar skuldir í bankakerfinu eru ekki afskrifaðar. Við eigum að taka upp efnahagsstefnu sem tryggir velferð allra, ekki bara velferð fjármagnseigenda.