141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það ber vel í veiði að geta andmælt síðustu orðum síðasta ræðumanns hástöfum því ég hef gert verulegar efnislegar athugasemdir við flestar greinar frumvarpsins. Ég skilaði 40 síðna umsögn sem hv. þingmaður hefur vafalaust lesið.

Eftir tíu daga gengur þjóðin til atkvæða um tillögur um nýja stjórnarskrá og hún hefur ekki fengið neina efnislega umræðu á Alþingi, enga. Ég vil spyrja hv. þm. Margréti Tryggvadóttur sem hefur haldið eina ræðu og sex andsvör um þetta mál — andsvörin voru svona og svona, svör við einhverju, spurt um uppáhaldsgreinina — en ræða hennar fjallaði ekkert efnislega um frumvarpið. Ég vil spyrja hana hvort ekki sé mál til komið að ræða frumvarpið efnislega.

Hv. þingmaður situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ég vil spyrja hana út í eitt atriði sem er Lögrétta. Hvernig líst henni á tillögur stjórnlagaráðs um Lögréttu og hvernig líst henni á þá hugmynd um Lögréttu sem ég gerði til hv. nefndar? Hvor hugmyndin er betri? Og þá er spurningin hvort breytingin sem ég gerði falli innan þess ramma sem fyrsta spurning í kosningunni eftir tíu daga segir til um, að tillögurnar verði lagðar til grundvallar. Hvað felst eiginlega í því? Má gera svona breytingu á frumvarpinu?

Til að það komi alveg skýrt fram þá mun ég mæta á kjörstað og nýta kosningarrétt minn sem borgari þessa lands, en þrátt fyrir mikla kosti þessa frumvarps eru gallarnir þyngri og alvarlegri þannig að ég mun segja nei við fyrstu spurningunni um hvort leggja skuli tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá.