141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á vordögum boðaði Sjálfstæðisflokkurinn að þegar þing kæmi saman í haust mundi hann kynna stjórnarskrártillögur sínar. Nú er að verða liðinn mánuður síðan þing kom saman og ekkert bólar á tillögunum og ég kalla því eftir tillögum Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrármálum. Nú eru aðeins tíu dagar til þjóðaratkvæðagreiðslunnar og það væri fengur að því að fá tillögur sjálfstæðismanna fyrir þær kosningar til að menn geti tekið efnislega afstöðu til þeirra valkosta sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leggja fram gegn tillögu stjórnlagaráðsins. (Gripið fram í: Á að kjósa um þær?)

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað dvelur orminn langa? Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn ekki kominn með þær tillögur sem hann boðaði að hann mundi kynna hér í byrjun september?

Ég sé að hér á eftir mér talar þáverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Elín Árnadóttir. Hún getur kannski upplýst okkur um það hvort við eigum von á þessum tillögum sem boðaðar voru eða hvort Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki komið sér saman um tillögur í stjórnarskrármálum eða hvort flokkurinn ætli bara að skila auðu í einu stærsta málefni sem til umfjöllunar er á vettvangi stjórnmálanna í dag, stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Ég vil ekki trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn með sína löngu sögu í íslenskum stjórnmálum ætli að skila auðu í stjórnarskrármálunum. Ég trúi ekki öðru en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einhverja sameiginlega afstöðu í þessum málefnum. En það vekur auðvitað ákveðnar spurningar þegar einn og einn þingmaður er farinn að leggja fram sína eigin stefnuskrá í stjórnarskrármálum af þeirra hálfu.