141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. 20. október nk. er merkisdagur í sögu þjóðarinnar. Þá hefur almenningur tækifæri til að setja mark sitt á gerð þeirrar stjórnarskrár sem þjóðin er að skrifa um þessar mundir. Það unga fólk sem setið hefur á pöllum Alþingis og fylgst með þeirri umræðu sem hér hefur farið fram hefur til dæmis stórkostlegt tækifæri til að koma að gerð nýrrar stjórnarskrár. Það er mikilvægt að allir mæti á kjörstað vegna þess að þeir sem sitja heima munu eftirláta öðrum að taka afstöðu til stjórnarskrárinnar. Þess vegna fagna ég því að Sjálfstæðisflokkurinn, síðastur flokka, ætli að hvetja sitt fólk til þess að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að Alþingi virði ferli málsins allt til enda. Það er þjóðin sem er að skrifa þessa stjórnarskrá en ekki alþingismenn. Það verðum við í þessum sal að virða. Þjóðin sjálf hefur fengið einstakt tækifæri í hendur til að koma að ákveðnum efnisatriðum við gerð stjórnarskrárinnar. Þegar þingið fær svo málið efnislega til meðferðar mun það væntanlega gera tæknilegar breytingar, orðalagsbreytingar og greinargerðarbreytingar en það mun ekki breyta efnisatriðum málsins vegna þess að þjóðin sjálf er að skrifa stjórnarskrá sína. Við alþingismenn verðum að virða það ferli allt til enda. Sem og tel ég skynsamlegt að þegar Alþingi hefur lokið umfjöllun sinni um málið verði fullbúin stjórnarskrá lögð fyrir þjóðina að nýju samhliða alþingiskosningum næsta vor og þá fái þjóðin öll að segja álit sitt á endanlegu plaggi.

Gætum að því að 20. október er merkisdagur vegna þess að við erum að upplifa sögulega tíma hér. Þjóðin öll — einn maður, eitt atkvæði — fær að taka afstöðu til efnisatriða í nýrri stjórnarskrá. Þetta eru sögulegir tímar og við eigum öll að fagna þeim stóra degi sem fram undan er. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)