141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tel alveg einsýnt að horft verði fram hjá þessum óskum hv. þm. Péturs H. Blöndals. Á meðan tillögur stjórnlagaráðs hafa ekki farið í gegnum atkvæðagreiðsluna eru engin efni til þess fyrir Alþingi Íslendinga fyrr en ráðgjöf þjóðarinnar er komin að fara að fjalla efnislega um tillögur stjórnlagaráðs.

Það er nefnilega ekki Alþingi sem er að skrifa þetta frumvarp eins og sakir standa heldur þjóðin. Það frumvarp eða þær tillögur sem þjóðin mun taka afstöðu til er niðurstaða 950 manna þjóðfundar sem haldinn var og lagði grunngildin að því plaggi sem stjórnlagaráð leggur svo fram í þjóðaratkvæðagreiðslu og Alþingi mun síðan taka til efnislegrar umfjöllunar.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með því hér í dag og undanfarna daga hvernig ákveðin öfl hér í þinginu beita sér af alefli gegn þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og reyna að gera sem minnst úr henni. Þetta eru öflin sem standa í vegi fyrir ákvæðinu um þjóðareign á þjóðarauðlindum. Öflin sem amast við því að almenningur sé upplýstur um mikilvæg mál, t.d. gagnvart umhverfisvá og mengunarhættu. Öflin sem hafa gripið hulins hendi um leynda valdaþræði hér í samfélaginu og vilja halda þeim.

Ég treysti því að þjóðin mæti vel á kjörstað og nýti þetta einstaka tækifæri sem nú gefst fyrir Íslendinga sjálfa til að leggja hönd að verki (Forseti hringir.) og sýna þá samfélagslegu ábyrgð sem felst í því að taka þátt í samfélaginu en vera ekki bara áhorfandi.