141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

tillögur stjórnlagaráðs.

[15:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Á undanförnum mánuðum, jafnvel missirum, hefur Sjálfstæðisflokkurinn tíðkað það að tala niður það ferli sem undirbúningur að nýrri stjórnarskrá hefur verið í. Síðast í dag og líka í umræðum um störf þingsins í gær var talað með niðurlægjandi hætti um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem fara á fram eftir tíu daga og hún kölluð skoðanakönnun. (PHB: Já.)

Það verður þó að segjast eins og er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú snúið við blaðinu og vill nú taka þátt í umræðum og nú vilja jafnvel fleiri en hv. þm. Pétur Blöndal taka þátt í atkvæðagreiðslunni sjálfri. Ég virði sérstaklega hv. þm. Birgi Ármannsson sem hefur með ítarlegum greinaskrifum í Morgunblaðið og jafnvel víðar gert grein fyrir afstöðu sinni í þessum málum.

Við fáum næg tækifæri til að ræða málið hér á þinginu, vona ég, en nú skulum við hlusta á þjóðina og tala við hana. Það verður fínn fundur um stjórnarskrána í Lögbergi á mánudaginn sem Ásta Möller, sem eitt sinn var hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, hefur boðað alla þingmenn til. Ég held við ættum að mæta á hann og tala við þjóðina, (Gripið fram í.) hlusta á þjóðina.