141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun.

44. mál
[15:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir þessa þingsályktunartillögu. Ég er henni mjög hlynntur, tel hana vera af hinu góða. Ég furða mig hins vegar á því að hún skuli hafa farið í umhverfis- og samgöngunefnd. Flest atriði sem um er rætt í greinargerðinni falla undir efnahags- og viðskiptanefnd. Spurningin er þessi: Hvers vegna fór þetta í umhverfis- og samgöngunefnd en ekki til efnahags- og viðskiptanefndar?

Það er verið að tala um að fella niður virðisaukaskatt ef hann er ekki mikill. Það er líka talað um að setja gjaldskrá fyrir umsýslugjöld vegna tollafgreiðslna o.s.frv., allt meira og minna mál sem falla undir fjármálaráðuneytið eða viðskiptaráðuneytið og ættu þar af leiðandi að heyra undir efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég endurtek að ég tel þetta vera góða hugmynd. Reyndar er eingöngu verið að fela forsætisráðherra að setja á fót starfshóp þannig að þetta er enn ein nefndin. Það getur vel verið að eitthvað gott komi úr því og út úr því komi eitthvað sem geri þessa verslun liprari. Þarna er um að ræða virkilega samkeppni við aðra verslun og ef vel tekst til mun sú samkeppni lækka verð til neytanda eins og alla jafna gerist með samkeppni. En svo vill til að samkeppnismál heyrir líka undir efnahags- og viðskiptanefnd.