141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun.

44. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stuðning hans við málið og get tekið undir athugasemd hans. Það vafðist aðeins fyrir mér á fyrra þingi hvaða nefnd ég ætti að mæla með að sæi um þetta mál. Efnahags- og viðskiptanefnd kom vissulega mjög til greina, en af því þetta fjallaði meðal annars um póstinn, Íslandspóst, lagði ég þetta til og ekki bárust um það athugasemdir.

Ég held að það skipti kannski ekki öllu máli. Það er alveg ljóst að þegar tillögur um breytingar koma frá þessari nefnd verða mjög margar þeirra ræddar í hinni háu efnahags- og viðskiptanefnd þannig að nefndarmenn þar geta byrjað að hlakka til þeirra umbóta sem við komum á þegar nefndin hefur lokið störfum.

Það sést nú líka á því að í nefndinni eiga að vera, fyrir utan fulltrúa frá samtökum kaupmanna, flutnings fyrirtækja og neytenda, starfsmenn eða fulltrúar ráðamanna í fjármála- og efnahagsráðuneyti, innanríkisráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, auk fulltrúa forsætisráðherra sem verður formaður nefndarinnar. Þannig að hér þarf að koma víða við.

Það var ekki allt sem benti til að þetta ætti að fara í eina nefnd öðrum fremur á þinginu. En athugasemdin er fullkomlega við hæfi og alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta hefði alveg eins og ekkert síður átt að fara í þessa nefnd.