141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

190. mál
[16:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var engan veginn að gagnrýna lagasetninguna, þessa breytingu, ég var engan veginn að gera það. Ég tel nauðsynlegt að bregðast við þegar svona agnúar koma upp. En ég var að benda á veiluna í lagasetningunni á sínum tíma, að gera ekki ráð fyrir lengri fresti þannig að fólk þyrfti ekki að bregðast svona hratt og skyndilega við. Ég vildi líka ræða það hvort ekki þurfi, í þeim lagatexta sem við nú ræðum, að setja inn einhver tímamörk, segjum árið 2014 eða 2015 eða eitthvað slíkt, þannig að þetta vofi ekki endalaust yfir, sé ekki endalaust ákvæði í lagasafninu — breyting á lögum frá 2012 sem var breyting á lögum frá 2008 — þannig að lagasafnið verði einhvern tímann pínulítið einfaldara.