141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

190. mál
[16:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mikilvægt innlegg af hálfu ráðherra að mínu mati til menntamála og þróunar menntamála og framvindu þeirra til lengri og skemmri tíma litið. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi orð. Ég verð að segja og mér er það ekkert þungt í skauti að ég er nokkurn veginn sammála hæstv. ráðherra í þessum efnum. Ég fagna því sérstaklega að ekki eigi að gefa eftir þessa kröfu, engu að síður er það er rétt sem kom fram í skýrslunni um aðgerðir til að efla meðal annars leikskólastigið að hugmyndir voru uppi um að áfangaskipta náminu. Ég tel það vel.

Ég held hins vegar að það væri forvitnilegt fyrir okkur — við höfum nokkrar aðallega verið að ræða um kennaramenntunina í þessum sal í fyrra og í hittiðfyrra — og mikilvægt fyrir þingið að átta sig á hvernig kennaramenntunin og stofnanirnar þróa kennaramenntunina sem slíka undir þessari nýju regnhlíf nýrra laga.

Ég tek undir og fagna orðum hæstv. ráðherra. Þetta eru spennandi tímar varðandi þróun kennaramenntunar og skólakerfið sem slíkt. Ef við sjáum að nemendum er almennt að fækka í kennaranámi, þeim sem sækja í háskólana til að öðlast kennaramenntun, þá þurfum við einfaldlega að huga að því hvort við förum í átak eða eitthvað annað og sameinast um það. Ég vona að við berum gæfu til að sameinast um það eins og við höfum gert í gegnum tíðina almennt um breytingar á skólakerfinu, hvort sem snertir kennaramenntunina eða annað, þótt það séu reyndar ákveðnir þættir í skólakerfinu sem við höfum ekki verið sammála um og snertir til dæmis samkeppni á sviði skólamála og hverjir geti komið að rekstri skólanna en það er önnur ella.

Þetta mál sýnir að við höfum bæði metnað og ákveðnar og skýrar kröfur varðandi kennaramenntun. Það er mikilvægt að við höldum áfram og sameinumst um að leita úrbóta til að fjölga í kennarastéttinni.