141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Hér er um að ræða sama frumvarp og ég mælti fyrir á 140. löggjafarþingi en hins vegar hafa verið gerðar á því breytingar í samræmi við nefndarálit meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar frá 13. júní síðastliðnum. Ég vonast til þess, í ljósi þess að þá var bent á að frumvarpið hefði komið fram á síðasta degi sem leyfilegt var að leggja fram mál, að þar sem þetta frumvarp kemur fram fyrr núna muni hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafa tíma til að vinna áfram að þessu máli.

Það liggur fyrir að fjölmiðlar eru að sjálfsögðu í stöðugri þróun og stjórnvöld verða að taka mið af því á hverjum tíma og búa þeim lagalega umgjörð við hæfi, það á ekki síst við um fjölmiðla í almannaþágu.

Árið 2007 voru sett ný lög um Ríkisútvarpið sem fólu í sér breytt rekstrarform, auk þess sem tekjustofni þess var breytt. Lögbundin afnotagjöld voru afnumin. Í stað þess var lagt á sérstakt gjald, svokallað útvarpsgjald, á skattgreiðendur.

Um mitt ár 2009 þegar rúmlega tveggja ára reynsla var fengin á ný lög ákvað ég að skipa starfshóp um almannaútvarp á Íslandi með það verkefni að meta áhrif nýrra laga og gera tillögur að úrbótum. Skilaði starfshópurinn tillögum sínum í byrjun árs 2010. Þær kynnti ég fyrir stjórn og stjórnendum Ríkisútvarpsins með ósk um að þær tillögur, sem ekki kölluðu á lagabreytingar, yrðu teknar til greina og var brugðist vel við því. Hins vegar kölluðu margar af tillögum starfshópsins um úrbætur á Ríkisútvarpinu á breytingar á gildandi lögum, auk þess sem athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA um tilhögun ríkisaðstoðar til Ríkisútvarpsins voru tilefni lagabreytinga.

Af því leiddi að ég skipaði nefnd um endurskoðun laga um Ríkisútvarpið ohf. sem var ætlað að taka mið af tillögum starfshópsins og athugasemdum ESA, auk þess að líta til löggjafar nágrannalanda okkar um almannaþjónustuútvarp, sérstaklega löggjafar Norðurlandanna. Nefndinni var ætlað að fjalla um hvort auka þyrfti sjálfstæði Ríkisútvarpsins sem fjölmiðils í almannaþágu, hvort stofna þyrfti sérstakt dótturfélag utan um starfsemi Ríkisútvarpsins sem ekki félli undir útvarpsþjónustu í almannaþágu, hvort finna mætti leiðir til að auka gagnsæi í rekstri og lýðræði í stjórnunarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins. Nefndinni var einnig ætlað að leita leiða til að auka og tryggja sjálfstæði og starfsöryggi starfsmanna Ríkisútvarpsins við fréttir og tengda dagskrárgerð. Nefndinni var ætlað að taka tillit til þess og taka til skoðunar hver ætti að vera ábyrgð mennta- og menningarmálaráðherra á hlutafélaginu Ríkisútvarpið ohf. Enn fremur að skoða tilhögun á hlutverki stjórnar og skipunar hennar og fjalla um kosti og galla þess að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins.

Nefndin skilaði niðurstöðu sinni í formi frumvarpsdraga í febrúar síðastliðnum. Þessi drög voru svo sett í opið samráðsferli þar sem öllum gafst kostur á að skila inn athugasemdum. Barst fjöldi athugasemda, bæði frá hagsmunaaðilum og líka frá einstaklingum um allt land, enda má í raun og veru segja að allir séu hagsmunaaðilar þegar kemur að Ríkisútvarpinu.

Við lokafrágang frumvarpsins var leitast við að taka tillit til athugasemdanna og var frumvarpið svo lagt fram í fyrra, en í framhaldinu skilaði meiri hluti hv. allsherjar- og menntamálanefndar nefndaráliti og hefur frumvarpinu verið breytt í samræmi við þær breytingar sem þar voru lagðar til.

Með frumvarpinu er mörkuð sú stefna að Ríkisútvarpið leggi megináherslu á það hlutverk sitt að veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Af því leiðir að lýðræðis-, menningar- og samfélagslegt hlutverk Ríkisútvarpsins er í forgrunni en viðskiptasjónarmið í starfseminni verða víkjandi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerð verði skýr aðgreining á milli fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annarrar starfsemi, m.a. til að varna því að viðskiptaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvarðanir um dagskrárefni. Þetta er í samræmi við það grundvallarsjónarmið sem hefur ríkt í starfsemi ríkisrekinna fjölmiðla á Norðurlöndum og víðar, ég nefni Bretland sem dæmi, og hefur skapað þeim sérstöðu meðal ljósvakamiðla. Sú sérstaða er meðal annars talin helsta ástæðan fyrir því almenna trausti sem ríkir hjá almenningi á fréttaflutningi opinberra fjölmiðla.

Margir telja að tilveruréttur ríkisfjölmiðla í framtíðinni muni byggjast á því að þeir tryggi almenningi hlutlæga og áreiðanlega fjölmiðlaþjónustu. Þetta á sérstaklega við þegar framboð misáreiðanlegra upplýsinga á netinu eykst sífellt. Skilin milli hlutdrægra upplýsinga og frétta verða óljósari og þar sem upplýsingar og fréttir eru beinlínis taldar vera verslunarvara.

Frumvarpið leggur þá skyldu á herðar Ríkisútvarpinu að það sjái til þess að útsendingar þess nái til allra landsmanna án tillits til búsetu og efnahags og er það eini fjölmiðillinn sem býr við þá kvöð. Þá er kveðið á um að dagskrárefni þess skuli vera fjölbreytt og að stjórn Ríkisútvarpsins móti dagskrárstefnu til lengri tíma. Í því felst að hún taki í stórum dráttum afstöðu til þess hvernig eigi að koma til móts við þarfir og óskir notenda um fjölbreytt og gott efnisframboð en — ég legg áherslu á það — ekki að hún hafi afskipti af einstökum dagskrárliðum.

Í þessu efni er rétt að leggja áherslu á kröfur almennings um gæði og fjölbreytni, því ef efnisframboðið er of einhæft er hætta á að fjölmiðlaþjónustan nái ekki til fjöldans og missi af þeim sökum gildi sitt og sérstöðu.

Í frumvarpinu er líka tekin sú afstaða að Ríkisútvarpið sé ein af helstu stoðum lýðræðissamfélagsins. Því er ætlað að sinna því hlutverki sínu með því að veita landsmönnum upplýsingar sem þeir geta treyst að dragi hvorki taum sérstakra sjónarmiða né hagsmunahópa, stjórnmálasamtaka eða einstaklinga. Með því móti gegnir Ríkisútvarpið lykilhlutverki við að gera fólki kleift að móta sér skoðanir og draga ályktanir út frá réttum upplýsingum að því marki sem það er nokkurn tíma mögulegt.

Hér er miðað við þá grundvallarforsendu að hverju lýðræðissamfélagi sé nauðsynlegt að reka fjölmiðil sem á engan hátt þarf að gæta neinna annarra hagsmuna en þeirra að stuðla að upplýstri umræðu með hlutlægum hætti. Hér undir fellur einnig skylda Ríkisútvarpsins til að kynna með vönduðum og hlutlægum hætti framboð og stefnur stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga. Sama gildir einnig um forsetakjör, þjóðaratkvæðagreiðslur og fleira þess háttar. Ein af forsendum virks lýðræðis er að fólki gefist færi á að kynna sér sjónarmið framboða, frambjóðenda o.s.frv. með tilstuðlan óháðra aðila en ekki aðeins í gegnum miðlun sem er greitt til að mynda fyrir eins og auglýsingum eða öðru slíku.

Með frumvarpi þessu er einnig mælt fyrir um innri starfsemi Ríkisútvarpsins til að efla lýðræðislega starfshætti þess, enda er gefin sú forsenda að opinbert félag sem á að gegna veigamiklu hlutverki við að efla og viðhalda lýðræði í landinu verði að starfa með lýðræðislegum hætti. Í því felst eðlileg dreifing ábyrgðar og víðtækt samráð um dagskrána með aðkomu starfsmanna og notenda.

Menningarhlutverk Ríkisútvarpsins snýr einkum að rækt við íslenska tungu, menningu þjóðarinnar, listir, íþróttir og því að vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð. Hér er megininntakið annars vegar að koma til móts við eðlilegar óskir almennings um íslenskt efni og hins vegar að styðja við framleiðslu á slíku efni, listsköpun og störf listamanna. Með ákvæðum frumvarpsins um starfshætti er staðfest að vönduð vinnubrögð séu óaðskiljanlegur hluti af fjölmiðlun í almannaþágu. Vönduð vinnubrögð fela meðal annars í sér að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast. Hjá nágrannaþjóðum okkar er þessi krafa mjög rík og virk í almennri umræðu um fjölmiðla og talað um hlutlægniskröfu þegar rætt er um almannaþjónustu fjölmiðla sem þýðir í raun og veru að þær upplýsingar og staðhæfingar sem fjölmiðillinn framreiðir séu réttar og allar nauðsynlegar upplýsingar komi fram.

Ég þykist vita að einhverjir hv. þingmenn vilji ræða um þá tilhögun á fjárhagsumhverfi Ríkisútvarpsins sem lögð er til hér og hefur verið endurmetin í þessu frumvarpi. Talið er mikilvægt að Ríkisútvarpið hafi vel skilgreindan tekjustofn og því verði tryggð fjárveiting samkvæmt áætlaðri innheimtu útvarpsgjalds. Það er mikilvægt að tekjustofn Ríkisútvarpsins sé skýr, fyrirsjáanlegur og samsvari innheimtu útvarpsgjaldsins til að það geti gert raunhæfar fjárhagsáætlanir til lengri tíma. Ég tel að fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins sé mjög mikilvæg forsenda fyrir sjálfstæði þess gagnvart hinu pólitíska og efnahagslega valdi. Verði sjálfstæði Ríkisútvarpsins ekki tryggt er vegið að getu þess til að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu sem á að vera fær um að veita nauðsynlegt aðhald stjórnvöldum á hverjum tíma, vera vettvangur skoðanaskipta, vera í aðstöðu til að geta sett á dagskrá málefni sem stjórnvöldum eða öðrum aðilum mislíkar.

Miðað við þessar forsendur er það eitt af markmiðum frumvarpsins að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart hinu pólitíska valdi. Því er lagt til að við útfærslu á útvarpsgjaldinu verði horfið til upphaflegs fyrirkomulags þess eins og það var lagt fram í lögunum sem voru samþykkt 2007 og lagt til að frá og með janúar 2014 verði tekjustofnar Ríkisútvarpsins eftirfarandi:

1. Sérstakt gjald sem lagt verði á einstaklinga og lögaðila, þ.e. útvarpsgjaldið títtnefnt.

2. Rekstrarafgangur vegna starfsemi sem fellur undir 4. gr. frumvarpsins, sem er önnur starfsemi sem lagt er til að stofnuð sé af dótturfélögum. Ég gæti nefnt sem dæmi sölu á efni eða eitthvað slíkt.

3. Tekjur af þjónustu sem fellur undir 3. gr. frumvarpsins.

4. Aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.

Í þeim tilgangi að tryggja stöðugleika í rekstri og það sjálfstæði sem ég hef hér gert að umræðuefni er mælt fyrir um að tekjur þess verði gerðar fyrirsjáanlegar, þær ákvarðaðar með sérstöku gjaldi sem ríkisskattstjóri leggur á samhliða álagningu opinberra gjalda samkvæmt 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldið lýtur sömu lögmálum og sérstakt gjald sem lagt er á samkvæmt lögum um málefni aldraðra til tekjuöflunar fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra, en tekjutenging gjaldsins þýðir að tekjulausir eða tekjulágir einstaklingar greiða ekkert gjald samanber lög nr. 125 frá árinu 1999.

Ríkisútvarpinu eru tryggðar mánaðarlegar tekjur af gjaldinu samkvæmt áætlaðri innheimtu. Með því er horft til þess fyrirkomulags sem lagt var til þegar rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins var breytt í opinbert hlutafélag, en því ákvæði var svo breytt með lögum nr. 174/2008 eins og menn rekur hér minni til. Þetta hefur verið talsvert í umræðunni síðan.

Ég vil segja um það mál, sem ég veit að hv. þingmenn gerðu að umræðuefni hér síðast þegar ég mælti fyrir frumvarpinu, að sá leiðangur sem farið var í 2008 þegar þessi mörkun var afnumin hefur vakið athygli víðar en á Íslandi. Til þessa hefur verið horft, m.a. annars staðar á Norðurlöndunum. Eins og ég hef skilið söguna þegar ákveðið var á sínum tíma að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins í opinbert hlutafélag, sem var gagnrýnt af mörgum, var að sumu leyti horft til norsku löggjafarinnar þar sem NRK er opinbert hlutafélag. Sama gildir um SVT sem er opinbert hlutafélag. Eftir að hafa átt fundi til að mynda með forsvarsmönnum NRK, sem starfa þar í stjórnendahópnum, þá finnst þeim það fyrirkomulag að breyta því og setja Ríkisútvarpið á fjárlög, þrátt fyrir að í tekjuhlið fjárlaga sé kveðið á um að útvarpsgjaldið sé ætlað til þess að reka Ríkisútvarpið ohf. og upplifun almennings sem greiðir þetta sama útvarpsgjald sé auðvitað sú að það sé að greiða fyrir Ríkisútvarpið ohf., það var mat til að mynda stjórnenda NRK að þetta hlyti að hafa áhrif á sjálfstæði Ríkisútvarpsins að þessi tenging hefur verið tekin úr sambandi. Ég tel þetta mjög mikilvægt ákvæði.

Ég vík þá að skipan og hlutverki stjórnar. Meðal tillagna starfshópsins sem ég nefndi áðan um almannaútvarp á Íslandi var að skipan og hlutverk stjórnar yrði tekið til athugunar. Það er gert í þessu frumvarpi einkum hvað varðar skipan og fyrirkomulag við val á stjórn Ríkisútvarpsins. Þar er gert ráð fyrir að ráðherra menningarmála tilnefni einn fulltrúa sem verði formaður stjórnar. Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni einn fulltrúa í stjórn en aðrir stjórnarmenn, fimm að tölu, verði tilnefndir af svokallaðri valnefnd sem er skipuð fulltrúum Alþingis, Bandalags íslenskra listamanna og samstarfsnefnd háskólastigsins.

Hugsunin á bak við þetta er að samsetning valnefndar og hlutverk hennar samkvæmt frumvarpinu tryggi að til stjórnarsetu veljist fólk sem hafi fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem varðar rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins og ekki síst meginmarkmiðum þess. Þessi hugmynd er að sumu leyti dregin líka frá þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá stjórnendum NRK sem bentu á að mjög mikilvægt væri að í stjórn almannaþjónustumiðilsins sæti góð samsetning af fólki þar sem ekki væri einhæf reynsla undir, heldur kæmi saman ólík þekking og ólík hæfni sem mundi nýtast til þess að skipa stjórn eins og best yrði á kosið.

Mér finnst þetta gilt sjónarmið en ég hef áttað mig á því að ýmsum hv. þingmönnum hefur þótt þetta kannski óþarflega flókið, en þarna er hugsunin sem sagt sú að safna saman ólíkum hæfileikum, ólíkri reynslu og þekkingu þannig að sem best samsetning fáist.

Ég vek athygli hv. þingmanna á því að samkvæmt tillögu meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar hefur verið gerð sú breyting að fulltrúi starfsmanna hafi málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt í stjórn Ríkisútvarpsins.

Ég nefndi það áðan að eitt af markmiðum frumvarpsins er að skilgreina betur almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins og þá um leið að draga úr vægi viðskiptalegra sjónarmiða. Til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins gagnvart viðskiptalegum sjónarmiðum er lagt til að stofnað verði sérstakt dótturfélag um þá starfsemi Ríkisútvarpsins sem fellur utan fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

Í greinargerðinni eru talin upp nokkur dæmi um starfsemi sem eðlilegt er að fari fram í dótturfélagi. Þar ber hæst sala auglýsinga- og kostunarrýmis í dagskrá móðurfélagsins, sala á dagskrárefni og sýningarrétti á eigin framleiðslu, samframleiðsla á efni með erlendum sjónvarpsstöðvum og fyrirtækjum, sala á dagskrárefni til almennings o.fl. Ég vísa aftur til Noregs þar sem sú leið hefur verið farin að stofna dótturfélag um slíkan samkeppnisrekstur. Þetta þekkist í fleiri nágrannaríkjum okkar. Hugsunin er sú að auðvelda fjárhagslega og ritstjórnarlega aðgreiningu milli útvarpsþjónustu í almannaþágu og samkeppnisrekstrar. Ég get nefnt dótturfélagið NRK Aktivum sem er rekið af NRK í Noregi og BBC Worldwide sem er rekið af BBC í Bretlandi.

Með því að birta verðskrár og tryggja jafnræði allra viðskiptavina er komið í veg fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Síðast en ekki síst eru settar takmarkanir á lengd auglýsingatíma og auglýsingar í miðjum dagskrárliðum. En staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði hefur verið ágreiningsefni um árabil. Með þessu er reynt að koma til móts við þau sjónarmið að draga eigi úr vægi þess á því sviði.

Ég tel að það sé þó ekki ágreiningur um að ríkið sé ekki í aðstöðu til þess að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins að fullu, fyrir utan að ólíkar skoðanir eru um þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. En ég tel að sú málamiðlun sem hér er lögð fram komi til móts við ólík sjónarmið í þessu máli að svo miklu leyti sem það er hægt. Í öllu falli er þetta mikilvægt skref sem sýnir þá hugmynd að viðskiptaleg sjónarmið eigi að hafa minna vægi en hin almannaþjónustulegu í rekstri Ríkisútvarpsins. Ég tel að þetta sé mikilvægt skref í þá átt og þar með að draga úr þátttöku þess á auglýsingamarkaði.

Á þeim fimm árum sem liðin eru frá gildistöku laga um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007, hafa komið í ljós nokkrir annmarkar á framkvæmd þeirra sem snúa að framkvæmd viðmiðunarreglna ESA um ríkisaðstoð til útvarpsþjónustu í almannaþágu og hefur ESA komið á framfæri við íslensk stjórnvöld ábendingum þar að lútandi. Meðal þeirra ráðstafana sem ESA hefur lagt til að gerðar verði af hálfu íslenskra stjórnvalda er að nánar verði skýrt hvernig ákvarðanir um nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu verði teknar. Þá leggur ESA til að sett verði leiðbeinandi viðmið fyrir gjaldskrár vegna þjónustu sem Ríkisútvarpið veitir gegn gjaldi og telst vera hluti af fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Þar má nefna til að mynda afritun efnis fyrir einstaklinga. Enn fremur telur ESA að setja verði skýrar reglur um meðferð hugsanlegrar ofgreiðslu til Ríkisútvarpsins. Þá hefur ESA lagt til að skilið verði milli fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annarrar starfsemi. Því til samræmis er gerð krafa um fullkominn aðskilnað í bókhaldi vegna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annars rekstrar.

Af framangreindu leiðir meðal annars að nauðsynlegt er að afmarka almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins með mun nákvæmari hætti en gert er í gildandi lögum. Þeim kröfum er mætt í frumvarpinu með ýmsum hætti.

Í 16. gr. er kveðið á um hvernig skuli staðið að ákvörðun um nýja fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, samanber 3. gr. frumvarpsins. Ég hef þegar greint frá nýrri og nákvæmari skilgreiningu á fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, stofnun sérstaks dótturfélags sem kemur til móts við kröfuna um fjárhagslegan aðskilnað. Með þeim hætti sem ég hef farið yfir teljum við að við komum til móts við ábendingar ESA.

Ég vil minna á að brýnt er að frumvarp þetta nái fram að ganga, því að með ákvörðun sinni 9. febrúar 2011 lagði ESA formlega til við íslensk stjórnvöld að þau breyttu fyrirkomulagi á fjármögnun Ríkisútvarpsins til samræmis við viðmiðunarreglur ESA um ríkisstyrki til fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu sem voru samþykktar árið 2010. Fresturinn sem ESA gaf til að orðið yrði við þeim tilmælum rann út um síðustu mánaðamót, þannig að búast má við að stofnunin stefni íslenskum stjórnvöldum ef frumvarp þetta nær ekki fram að ganga á þessu þingi. Gaman að því.

Hæstv. forseti. Ég hef greint frá helstu atriðum frumvarpsins en eigi að síður er ástæða til að vekja athygli á nokkrum atriðum til viðbótar sem er ætlað að skapa betri grunn fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.

Í fyrsta lagi er mælt fyrir um aukið aðgengi sjón- og heyrnarskertra að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Gert er ráð fyrir sérstökum aðgerðum til að gera heyrnarlausum fært að fylgjast með tilkynningum um og lýsingum á atburðum sem hugsanlega ógna öryggi almennings, til að mynda náttúruhamförum.

Í öðru lagi er lagt til að umsjón með eignarhlut ríkisins í Ríkisútvarpinu — tengist þetta því sem var tekið til skoðunar í starfshópi um almannaútvarp þar sem var einmitt horft til þess hver ætti að vera ábyrgð mennta- og menningarmálaráðherra á hverjum tíma á Ríkisútvarpinu — færist frá fjármála- og efnahagsráðherra til mennta- og menningarmálaráðherra, þ.e. að eignarhald Ríkisútvarpsins færist aftur til þess ráðherra sem að öllu jöfnu ber ábyrgð á fjölmiðlum, samanber I-lið 5. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 100/2012.

Nú kann að vera að einhverjir hv. þingmenn vilji benda mér á að það sé hin almenna stefna og hafi verið að eignarhlutir opinberra fyrirtækja liggi hjá fjármálaráðherra. Það er að sjálfsögðu hárrétt, en eftir að hafa skoðað þau mál mjög ítarlega — og nú nefni ég aftur Noreg sem fór þá leið að reka sitt almannaþjónustuútvarp sem opinbert hlutafélag og hefur líka fylgt þeirri stefnu að eignarhlutir í opinberum félögum liggi almennt hjá fjármálaráðherra. Þar var einmitt gerð sérstök undantekning með NRK, norska ríkisútvarpið, á þeirri forsendu að þar væri ekki um hefðbundið opinbert hlutafélag að ræða heldur menningarstofnun að einhverju leyti sem ætti fyrst og fremst heima hjá menningarráðherranum. Við fórum vandlega yfir þetta með fulltrúum þeirra og þar lá fyrir að menn töldu það orðið allflókið stjórnskipulag að hafa sjálfstæða stjórn yfir almannaþjónustumiðlinum, hafa menningarmálaráðherra sem færi með, við getum sagt stefnumörkun stjórnvalda sem við gerum í gegnum samning um útvarpsþjónustu í almannaþágu og síðan lægi eignarhluturinn á þriðja staðnum. Ég held að sú breyting sem Ríkisútvarpið sjálft hefur mælt með verði hreinlega til að skýra þessa stjórnsýslu og vekja kannski athygli manna á því að hér er ekki eins og ég segi um að ræða hefðbundið fyrirtæki eins og við þekkjum sem er eingöngu í rekstri, heldur menningarstofnun undir þessu formi.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um sérstaka vernd í starfi fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn, samanber 12. gr. frumvarpsins. Þetta snýr að því sem víða er gert í kjarasamningum en er ekki gert hér á landi, en snýr að því að það þurfi sérstaklega að vernda þá sem eru að taka upp umdeild málefni í gegnum fréttir og dagskrárgerð.

Í fjórða lagi er lagt til að Ríkisútvarpið taki upp innra gæðaeftirlit. Meðal annars er mælt fyrir um að það setji sér reglur með skilgreindum ferlum um meðferð athugasemda og kvartana sem berst frá almenningi.

Í fimmta lagi er ráðgert að mat á frammistöðu Ríkisútvarpsins á sviði fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu verði í höndum fjölmiðlanefndar, enda nauðsynlegt að óháður eftirlitsaðili leggi mat á það hvort Ríkisútvarpið veiti í raun þá fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu sem er kveðið á um í 3. gr. frumvarpsins.

Hæstv. forseti. Markmið frumvarpsins er að skapa Ríkisútvarpinu lagalega umgjörð með tilliti til þeirrar reynslu sem hefur fengist af lögum nr. 6/2007, og bregðast við athugasemdum ESA. Með frumvarpinu er ráðgert að festa í sessi ákvörðun íslenskra stjórnvalda um hvað felist í fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, skapa þannig traustari starfsgrundvöll fyrir Ríkisútvarpið. En að auki er það markmið frumvarpsins að gera Ríkisútvarpinu kleift að styrkja starfsemi sína á þeim sviðum þar sem það skarar fram úr og hefur skapað því traust á meðal þjóðarinnar. Markmiðið er einnig að efla lýðræðislega starfshætti, ábyrgðardreifingu og þátttöku starfsmanna auk notenda við mótun dagskrárstefnu og dagskrárval enda er það órjúfanlegur hluti af lýðræðishlutverkinu. Það sama má segja að birtist í nýju fyrirkomulagi við skipan stjórnar. Hún á að endurspegla lýðræðis- og menningarhlutverk Ríkisútvarpsins.

Ákvæði um eftirlit með því hvernig Ríkisútvarpið stendur að fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu er annars vegar að koma til móts við kröfur ESA í því efni og hins vegar að leggja áherslu á að stjórnvöldum ber að fylgja því eftir að starfað sé í samræmi við lög og markmið með fjölmiðlun í almannaþágu. Það er mat mitt að þeim markmiðum verði náð með samþykkt frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr.