141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar og fyrir að hafa, þótt ég hafi ekki staðið að áliti meiri hluta allsherjarnefndar, tekið tilliti til þeirra ábendinga og breytingartillagna sem gerðar voru í vor. Það er ekki alltaf svo að slíkar ábendingar og samþykktir frá nefndum séu teknar inn. Ég tel að þær séu til bóta þó að ég sé allsendis ósátt við margt í frumvarpinu enn þá. Ég mun koma inn á það í ræðu minni á eftir.

Ég vil fyrir það fyrsta spyrja um hlutverk Ríkisútvarpsins. Ég held að það mundi taka mig um tíu mínútur að lesa hvert hlutverk Ríkisútvarpsins er, eins og það kemur fram í 3. gr. frumvarpsins, ef ég ætti að lesa þá grein hægt og skýrt til þess að allir skildu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað fellur ekki undir hlutverk Ríkisútvarpsins? Getur hún bent mér á eitthvað sem fellur ekki undir starfsemi sem Ríkisútvarpið á að skipta sér af? Þetta er fyrsta spurningin.

Önnur spurningin er: Telur ráðherra að þær takmarkanir sem settar eru í frumvarpið skipti einhverju máli? Ég sé í áliti frá fjárlagaskrifstofunni, þar sem greinilega er stuðst við álit frá menntamálaráðuneytinu, að menn telja að auglýsingatakmarkanirnar muni hafa í för með sér einhverja skerðingu fyrir stofnunina. Í umsögnum sem bárust nefndinni og á fundi nefndarinnar síðastliðið vor bentu samkeppnisaðilar Ríkisútvarpsins á það og studdu með rökum að þær takmarkanir sem er verið að setja í frumvarpið mundu ekki skipta Ríkisútvarpið neinu máli af því að þær væru langt undir þeim mörkum sem miðað væri við. Skipta þessar takmarkanir einhverju máli? Eða telur ráðherra einfaldlega rétt að hafa Ríkisútvarpið í þeim mæli sem það er á auglýsingamarkaði í dag?

Ég mun síðar koma í ræðu minni að áliti fjárlagaskrifstofunnar sem er stórmerkilegt og þar er gefið í skyn að menn séu ekki sáttir á þeim bænum, í fjármálaráðuneytinu, um aðferðafræðina (Forseti hringir.) varðandi nefskattinn.