141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvað falli ekki undir fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Það er ljóst að við höfum ekki skilgreint það nægilega vel hingað til, það er mat ESA. Hér er gerð atlaga að því að gera það og það hefur verið gert í samráði við sérfræðinga ESA, enda leggja þeir til leiðbeinandi reglur. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að þær reglur um útvarpsþjónustu í almannaþágu snúast um að uppfylla lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir samfélagsins, auk menningarlegs og tungumálalegs fjölræðis, eins og það er orðað í leiðbeinandi reglum. Það fellur því gríðarlega margt undir fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. ESA hefur gert athugasemd við það að ekki sé reynt að skilgreina þessa fjölmiðlaþjónustu í gildandi lögum. Hv. þingmaður getur haft þá skoðun að skilgreining ESA sé allt of víðtæk og nái yfir allt of breitt svið. Það er eitthvað sem hægt er að ræða. Ég tel hins vegar að 3. gr. snúi að því að reyna að skilgreina hvernig við teljum að hægt sé að uppfylla lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir samfélagsins, auk menningarlegs og tungumálalegs fjölræðis, eins og það er orðað.

Það er ljóst að slík dagskrá þarf að hafa mjög víðtæka skírskotun. En við getum bara litið til þeirra almannaþjónustumiðla sem við berum okkur saman við í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, sem reka auðvitað mjög öfluga og fjölbreytta dagskrá, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Þar hefur augljóslega verið farin sú leið að skilgreina þetta víðtækt, en hins vegar, og það snertir hina spurningu hv. þingmanns, eru þeir miðlar ekki á auglýsingamarkaði.

Nú liggur fyrir að skerðingin á tekjum Ríkisútvarpsins með þeim tillögum sem hér eru lagðar til og byggja ekki aðeins á útreikningum Ríkisútvarpsins heldur hefur einnig verið ráðist í sjálfstæða útreikninga á því, (Forseti hringir.) sé upp á 365 milljónir. Ég mundi telja að það munaði um það þótt vafalaust finnist einhverjum ekki nógu langt gengið.