141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég segi bara að mér er til efs að svona skilgreining sé til að mynda í norsku lögunum um NRK, hvað þá að ESA hafi sett fram þessar skilgreiningar. Það er oft hægt að skýla sér á bak við ESA, en ekki það að menn geti ekki á góðri, hnitmiðaðri íslensku skilgreint nákvæmlega hvert almannaþjónustuhlutverk og öryggishlutverk Ríkisútvarpsins er. Ég held að þetta sé alveg með ólíkindum. Ég held miklu frekar að aðrir hafi reynt að koma inn sínum skilgreiningum eins og oft vill verða þegar hagsmunaaðilar fá tækifæri til að breyta frumvörpum. Það er alveg ljóst að menn eru að reyna að ná yfir allt. Þetta var meðal annars eitt af þeim atriðum sem við ræddum um í vor.

Ef eitthvað er vafamál þá sagði víst góður maður að það væri ekki alltaf hægt að skilgreina klám, þú bara þekkir það þegar þú sérð það. Það er nákvæmlega þannig með almannaþjónustuhlutverkið — ég er ekki að tala um að það sé klám heldur að menn átti sig á því að það þurfi ekki svona víðtæka skilgreiningu eins og í þessu frumvarpi. Það má miklu frekar fara hina leiðina. Ef ég væri til dæmis samkeppnisaðili Ríkisútvarpsins mundi ég segja: Bíddu, samþykkið þið hjá ESA þetta? Það fellur bara allt hér undir. Þeir mega gera hvað sem er. Ég vil því mótmæla þessari skýringu en virði engu að síður svörin.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé einlægt þeirrar skoðunar að best sé að hafa stjórn Ríkisútvarpsins skipaða eins og lagt er til í frumvarpinu, þ.e. að skipuð verði valnefnd, það verði eftir sem áður ráðherra sem ber ábyrgð á stjórninni, hann skipar hana, og að starfsmenn Ríkisútvarpsins eigi að hafa aðgang að stjórn og seturétt í stjórninni.

Ég vil hins vegar fagna því að tekið hefur verið tillit til álits meiri hluta allsherjarnefndar frá því í vor. En eftir situr spurningin: Mun þetta vera hin almenna stefna ríkisstjórnar Íslands að hafa (Forseti hringir.) starfsmenn ríkisstofnana í stjórnum þeirra stofnana þar sem enn þá eru stjórnir?