141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir framlag hennar og ræðu um Ríkisútvarpið.

Það kemur fram í 2. gr. að Ríkisútvarpið er sjálfstætt, opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Ég veit ekki hvað það þýðir að vera sjálfstætt hlutafélag, en opinbert hlutafélag skal það vera. En síðan stendur hvergi í frumvarpinu ohf. á eftir orðinu Ríkisútvarp til merkis um að átt sé við opinbert hlutafélag eða hlutafélag yfirleitt eins og venjan er.

Svo er dálítið merkilegt að í frumvarpinu segir að ráðherra fari með eignarhlut íslenska ríkisins. Ég reikna með því að lögskýringarmenn segi að það sé menntamálaráðherra, en sumir telja að fjármálaráðherra eigi að hafa með þetta að gera, hann sé handhafi hlutabréfsins eða gæti þess. Ég mundi vilja að þetta yrði skýrt dálítið betur, að eigandi eða handhafi bréfsins sé menntamálaráðherra.

Svo stendur hér að valnefnd tilnefni fimm fulltrúa í stjórn og jafnmarga til vara. Síðan tilnefnir ráðherra einn og starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefna einn. Þá er ég kominn upp í sjö fulltrúa, en þá gerist það merkilega að einn af þessum sjö hefur ekki atkvæðisrétt.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það samrýmist lögum um hlutafélög og opinber hlutafélög að í fyrsta lagi sé kosin stjórn en það er í raun engin kosning því að það er búið að tilnefna stjórnina. Hvernig samrýmist það lögum um hlutafélög, sem opinber hlutafélög falla undir, að það sé í raun engin kosning? Þetta er ekki kosning, það er búið að velja þetta fólk, það gerist sjálfkrafa fyrir aðalfund.

Ég vil spyrja hvernig þetta samrýmist reglum um hlutafélög og sérstaklega það að einn af stjórnarmönnum njóti ekki þeirra réttinda (Forseti hringir.) að hafa atkvæðisrétt.