141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um stjórnina og ég þakka hv. þingmanni athugasemdina um hana. Ég tel að það þurfi kannski að skoðast betur hvort það samrýmist lögunum að einn fulltrúi eigi ekki atkvæðisrétt. Eins og ég nefndi áðan var þetta tillaga frá meiri hluta nefndarinnar og ég taldi víst að svo væri, en ég tel kannski rétt að nefndin fari yfir það.

Hvað varðar kosningu stjórnar er fyrirkomulagið auðvitað núna þannig að Alþingi kýs stjórn sem síðan er kosin á aðalfundi. Þar er í raun og veru líka tvöfalt kerfi í gangi með því fyrirkomulagi, þ.e. það er búið að kjósa stjórnina á Alþingi áður en hún er kosin á aðalfundi. Mig rekur ekki minni til þess að neitt nýtt hafi gerst þegar stjórn er kosin á aðalfundi heldur er alltaf kosin sama stjórnin og Alþingi hefur kosið áður.

Hv. þingmaður spyr út í ohf. Það er rétt, þetta er opinbert hlutafélag. Það er ekki tiltekið í hvert einasta skipti að þetta opinbera hlutafélag heitir Ríkisútvarpið. Við reiknum með að það sé ohf., þannig að ég tel ekki ástæðu til að tilgreina það sérstaklega í lagatexta, enda kemur mjög skýrt fram í 2. gr. að svo sé.

Hv. þingmaður nefndi einnig eignarhlutinn. Ég tel að það hafi komið skýrt fram í máli mínu áðan að hér er lagt til að eignarhlutur þessa opinbera hlutafélags sé hjá menntamálaráðherra á hverjum tíma.