141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar um málið. Ég kalla í fyrsta lagi eftir því hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi gert athugasemd í ríkisstjórn þegar frumvarpið var lagt fram.

Ég átta mig ekki alveg á hvaða vegferð við erum. Fjármálaráðuneytið vinnur að frumvarpi í samvinnu og samstarfi við hv. fjárlaganefnd þar sem gert er ráð fyrir að allar markaðar tekjur og það sem hægt er að taka af sértekjum fari beint í ríkissjóð og að allar stofnanir sem fá úthlutað af fjárlagaliðum fari beint inn á fjárlagaliði.

Hver er tilgangurinn? Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að auka aga í ríkisfjármálum, til þess að ná tökum á fjármálunum. Ég átta mig því ekki á því á hvaða vegferð við erum. Ég spyr: Á hv. fjárlaganefnd og fjármálaráðuneytið yfirleitt að fara í þessa vinnu eða eru allir að róa í sömu átt? Það lítur þannig út fyrir mér þannig að sumum virðist bara ekki koma þetta verkefni við. Það er enginn pólitískur ágreiningur um verkefnið í hv. fjárlaganefnd. Það eru allir sammála um markmiðið og að það eigi að gera þetta með þessum hætti.

Nei, nei, enn og aftur eru lögð fram ný frumvörp sem ganga þvert á þá vinnu. Ég velti fyrir mér á hvaða vegferð við erum. Ég skil það bara ekki. Í þessu tilfelli er gert ráð fyrir að á árinu 2014 eigi að auka útgjöld til Ríkisútvarpsins um 875 millj. kr., þ.e. um 27%, en á sama tíma heyrum við fréttir dag eftir dag, kvöld eftir kvöld í Ríkisútvarpinu og fleiri fjölmiðlum um grafalvarlegt ástand á heilbrigðisstofnunum landsins, til að mynda á Landspítalanum. Við heyrum fréttir af því sem er að gerast, um aðbúnað krabbameinssjúklinga og fleira. Á að auka framlag til Ríkisútvarpsins til þess að það geti flutt fleiri fréttir? Hvers konar vitleysa er það eiginlega? Það gengur svo fram af mér að ég á ekki til eitt aukatekið orð. Hver er staða ríkissjóðs í raun?

Ég verð að viðurkenna að mér er algjörlega misboðið, sama hversu góð stofnun Ríkisútvarpið er, mér algjörlega ofviða að skilja hvers vegna menn forgangsraða svona í fjármálum ríkisins.

Við skulum setja málin í samhengi. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að við ræðum af hreinskilni hvernig við ætlum að forgangsraða í ríkisfjármálum. Ætlum við að gera það með því að auka útgjöld til þessarar stofnunar eða einhverrar annarrar? Um það finnst mér spurningin snúast. Svo geta hæstv. ráðherra og hv. þingmenn flutt hér einhverjar ræður um mikilvægi þess að þessi stofnun þurfi að vera eitthvað sér og fyrir utan annað. Það er bara algjör vitleysa. Á sama tíma og við fáum fréttir af ástandinu á heilbrigðisstofnunum landsins víðs vegar um landið, um að við höfum ekki efni á að kaupa tæki, skal auka útgjöld til Ríkisútvarpsins um 27% bara sisvona, 875 millj. kr. Það er algjörlega yfirgengilegt og gengur þvert á þau markmið sem unnið er að í hv. fjárlaganefnd í góðri samvinnu og sátt við fjármálaráðuneytið. Ég verð að viðurkenna að ég er verulega svekktur yfir þessu.

Síðan vil ég benda á það sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins: Gerði hæstv. fjármálaráðherra athugasemd við framlagningu þessa frumvarps? Verið er að vinna það í sátt við nefndina, ráðuneytið og hæstv. ráðherra en samt er haldið áfram á þessari braut. Það er algjörlega yfirgengilegt. Ég hvet hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að taka alvarlega athugasemdir sem koma frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Þær hafa að mínu mati margar hverjar verið beittari en ég hef átt að venjast á þeim stutta tíma sem ég hef setið á þingi. Ég hef velt því fyrir mér og sagt það á fundum hv. fjárlaganefndar að þarna sé akkúrat fólkið sem sýsli mest um fjármál ríkisins. Er þetta ágæta fólk að reyna að vekja okkur til umhugsunar, að reyna að gera okkur grein fyrir því hvert við erum að stefna? Ég velti því alvarlega fyrir mér.

Ef við skoðum niðurstöðu og síðustu setningarnar í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir þar orðrétt, með leyfi virðulegs forseta:

„Í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur sett fram stefnumörkun í ríkisfjármálaáætlun sinni um að ríkissjóður verði orðinn hallalaus árið 2014 hlýtur að þurfa að bregðast við til að afstýra svo verulegu fráviki frá settum markmiðum.“

Það er í rauninni ekki hægt að kveða skýrar að orði og þeir sem segjast ekki skilja þennan texta vilja bara ekki skilja hann. Svo einfalt er það í mínum huga.

Ég sagði áðan að við þyrftum að taka mjög alvarlega þær ábendingar sem hér koma fram og við þurfum að taka heiðarlega umræðu um hvernig við ætlum að forgangsraða í ríkisrekstrinum. Hver er tilgangurinn með þeirri vinnu sem ég fór yfir áðan? Jú, hann var fyrst og fremst að reyna að taka á agaleysinu í ríkisfjármálunum. Það ríkir algjört agaleysi í ríkisfjármálum, algjört.

Það er eins og hver og einn hæstv. ráðherra lifi sjálfstæðu lífi, þó að ég sé ekki að saka hæstv. menntamálaráðherra um það í þessu tilfelli, að því leyti að heildarstabbinn í hinum sameiginlega ríkissjóði er ekki viðfangsefni viðkomandi ráðherra. Til þess að rökstyðja það var gerð breyting í vor undir forustu hv. fjárlaganefndar þar sem fjármálaráðuneytið og Ríkisendurskoðun, sem við höfum átt gott samstarf við, komu saman til að reyna að sjá hvernig framkvæmd fjárlaga gengi fyrir sig. Strax í vor komu í ljós mjög miklir annmarkar. Og hvað gerði hv. fjárlaganefnd? Hún kallaði viðkomandi ráðherra, alls þrjá, á fund hv. fjárlaganefndar til þess að fara yfir hvernig þeir ætluðu að gera til að fara eftir fjárlögum. Slíkt er nýlunda, alla vega á þessu kjörtímabili. Ég ætla ekki að fullyrða um að það hafi ekki verið gert áður en ég held að svo sé ekki. Þá voru ekki liðnir nema fjórir mánuðir af árinu. Skilaboðin til ráðherranna voru mjög skýr. Þau voru þessi: Fjárlögin eru að sjálfsögðu vitlaus. Það vita allir að þau ganga ekki upp. Auðvitað þarf að bæta við þó svo að ekki hafi verið gerðar athugasemdir þegar fjárlögin voru samþykkt. Þetta er bara því miður svona og ég hef verulegar áhyggjur af þessu vegna þess að ég hef það á tilfinningunni að endalaust sé verið að ýta vandamálum á undan sér yfir á komandi kynslóðir. Af hverju segi ég það? Vegna þess að ég er ansi hræddur um að það séu mjög margir hv. þingmenn sem ekki hafa nægilegan áhuga á því hvernig bregðast verður við og greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Við heyrðum það í störfum þingsins í dag þegar tveir stjórnarliðar töluðu um að allt fagurt væri fram undan. En hver er raunverulega staðan? Hún er sú að ríkissjóður skuldar um 2.000 milljarða. Vaxtagreiðslur á næstu fjórum árum eru tæpir 400 milljarðar, bara vextir. Þá er reiknuð og sett umgjörð í kringum það, það kemur skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu að það er gert á meðan við erum í skjóli gjaldeyrishafta þannig að vaxtastigið á ríkissjóði er miklu lægra en ef engin gjaldeyrishöft væru.

Þetta eru viðfangsefnin. Á síðasta ári, árið 2011, jukust skuldir ríkissjóðs um 100 milljarða nettó en í heildina um 200 milljarða. Þetta er verkefnið. Þess vegna segi ég að það verður auðvitað að fara að forgangsraða í ríkisfjármálum til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, annars erum við bara í nákvæmlega sömu afneitun og við höfum verið í allt of lengi. Við stefnum fram af bjargbrúninni og enginn virðist spá í það. Svo bara förum við fram af. Ég hef af því verulegar áhyggjur.

Hvað er verið að gera núna og hver eru viðbrögðin? Það er nokkuð merkilegt. Viðbrögðin eru þau að þegar farið er í framkvæmdir þá eru þær bara teknar út fyrir ríkisreikning. Skýrasta dæmið er nýjasta samþykkt þingsins á svokölluðum Vaðlaheiðargöngum síðasta vor. Það er einmitt gríska leiðin. Þess vegna segi ég: Erum við í algjörri afneitun eða meiri hluti hv. þingmanna? Þetta er grafalvarlegt mál.

Síðan erum við væntanlega að fara að fjalla um nýjan Landspítala á næstu vikum, ekki nema afgreiða eigi það mál á einni viku eða tveimur, þremur dögum í krampakasti fyrir jólin eða áramótin. Það verður kannski ekki hægt að afgreiða það mál nema á handahlaupum í tímaþröng hér í lokin.

Það þarf að fara hreinskilnislega yfir stöðu mála. Það veldur mér mestum vonbrigðum að það skuli vera gengið þvert á þá vinnu sem ég tel að hv. fjárlaganefnd og fjármálaráðuneytið séu að vinna einmitt til að koma í veg fyrir agaleysið. Það er svo margt sem spilar inn í. Ef við komum til að mynda að ríkisreikningi frá árinu 2011 þá er ekki einu sinni komin skýrsla um hann. Hann verður væntanlega ekki samþykktur fyrr en á næsta kjörtímabili og því þurfum við að breyta. Í ríkisreikningi 2011 er hallinn tæpir 30 milljarðar, þ.e. það sem gert er ráð fyrir í fjárlögum og fjáraukalögum og samþykkt frá Alþingi. Það hlýtur að þurfa að taka afstöðu til þess þegar við eigum ekki til fyrir tækjum á heilbrigðisstofnanir. Löggæslan er eitt dæmi um það sem blasir við okkur þessa dagana og svo margt fleira.

Skoðun mín er sú, og ég vil að hún komi skýrt fram, að ég tel þetta vera bruðl og vitleysu og ekkert annað. Þetta er röng forgangsröðun. Ég gef ekki mikið fyrir það, það getur vel verið að ég taki stórt upp í mig sem er svo sem ekkert nýtt, þegar menn tala um að taka þurfi pólitískt vald frá fjárveitingavaldinu og færa til Ríkisútvarpsins með því að úthluta fé með þessum hætti.

Það er nefnilega fullt af breytum í útvarpsgjaldinu sem þingið getur sett, hvort sem það er tekjutenging, aldur eða annað, þannig að ég sé ekki sterk rök fyrir þessu. Ef menn teldu hættu á því að stjórnvöld vildu fara í herför gegn Ríkisútvarpinu í þessu tilviki, gegn einhverjum hlutum með því að taka pólitískt vald frá fjárveitingavaldinu, gæti Alþingi ákveðið að hækka bara tekjumörkin.

Þá mundu minni tekjur renna til Ríkisútvarpsins, þannig að það eru ekki nægilega sterk rök til að fara í þessa vegferð að mínu viti. Það veldur mér miklum áhyggjum og vonbrigðum að farið skuli fram með þetta mál þannig að markaðar tekjur fari beint til viðkomandi stofnunar. Við getum tekið endalausa umræðu um það.

Við getum skoðað Fjármálaeftirlitið. Við getum líka skoðað Hæstarétt. Hann fær framlög beint frá Alþingi. Af hverju þurfa hérðaðsdómstólar ekki að hafa sérmarkaða tekjustofna til að klippa á strenginn á milli fjárveitingavaldsins og viðkomandi stofnana? Það er endalaust hægt að ræða það. (SF: Forseti Íslands.) Til dæmis, já. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefnir forseta Íslands. Alveg rétt. Við getum endalaust rætt þetta. En það veldur mér miklum áhyggjum og miklum vonbrigðum að menn ætli að bæta við tæpum 900 milljörðum til Ríkisútvarpsins árið 2014 í því ástandi sem nú er í heilbrigðismálum, löggæslumálum og fleiri málum. Ég ítreka það sem ég hef sagt: Þetta er ekki rétt forgangsröðun, nema það verði það mikið að gera hjá Ríkisútvarpinu að flytja fréttir af bágri stöðu lögreglunnar eða heilbrigðisstofnana að hækka þurfi fjárveitingar þess vegna.