141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mig hafa fært fyrir því rök og vil ítreka þau að við byggjum samfélag okkar á þrískiptingu valds, en hv. þingmaður ræddi um dómstóla, löggjafarvald og framkvæmdarvald og af hverju við þurfum ekki að tryggja það sérstaklega með mörkuðum tekjum.

Ég bendi hv. þingmanni á að við byggjum samfélagið á þessari þrískiptingu, hún er skráð í stjórnarskrá, en lagalegt hlutverk þess sem við höfum kallað fjórða valdið, fjölmiðlana, er hvergi afmarkað með sama hætti. Ég hvet hv. þingmann til að skoða þetta því að þetta er ekki eitthvert fordæmi sem ég er að finna upp, þetta er ekki hjól sem verið er að finna upp hér í fyrsta sinn. Horfum á almannaþjónustumiðlana í löndunum í kringum okkur og skoðum orðræðuna sem þar hefur farið fram um af hverju talið hefur verið nauðsynlegt að þeir miðlar hafi markaðan tekjustofn til að tryggja sjálfstæði sitt.

Ég held að allir hv. þingmenn vilji tryggja fjórða valdið í sessi. Við teljum mikilvægt, að minnsta kosti flest okkar, að það séu til öflugir almannaþjónustumiðlar, þeir séu ein af undirstöðum í fjórða valdinu og mikilvægt að þeir njóti þessa sjálfstæðis og hafi þennan fyrirsjáanleika í tekjustofni sínum.

Ég spyr líka hv. þingmann sem gagnrýnir þetta fyrirkomulag hver hans hugmynd er þá um fjármögnun Ríkisútvarpsins. Er hugmynd hans sú að Ríkisútvarpið sé þá á fjárlögum eins og hver önnur stofnun? Telur hann að ekki eigi að gilda um það neinar sérstakar reglur í ljósi þess að þetta er almannaþjónustufjölmiðill okkar sem hefur mikilvægu lýðræðishlutverki að gegna og er ekki stjórnarskrárbundinn með sama hætti og þær stofnanir sem hann nefndi?

Ég minni líka á það að hér er ekki verið, að mínu viti, að auka útgjöld ríkisins. Hér er talað um að það sem við, almenningur í landinu, borgum, gjaldið vegna Ríkisútvarpsins ohf. eins og það stendur í fjárlagafrumvarpinu, renni til Ríkisútvarpsins ohf. Ef við ætlum að hafa slíkt sérstakt (Forseti hringir.) gjald er þá ekki rétt að það sé gagnsætt hvert það renni eða er hv. þingmaður ósammála því?