141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður fór vítt yfir sviðið í ræðu sinni og nefndi að það væri mikilvægt að hæstv. ráðherrar hefðu heildarsýn á ríkisútgjöldin. Ég er sammála hv. þingmanni um það en ég tel að það hafi nú verið ákveðin einföldun þegar hv. þingmaður vísaði í fundi hv. fjárlaganefndar með ráðherrum. Að sjálfsögðu eiga ráðherrar að bera ábyrgð á því að fjárlögum sé fylgt en á móti kemur að hæstv. ráðherrar á hverjum tíma eiga rétt á að benda á þá veikleika sem þeir telja vera á fjárlögum. Ég tel því ekki að þetta snúist bara um að benda á að fjárlögin séu vitlaus, eins og hv. þingmaður orðaði það. Ég tel mig að minnsta kosti ekki hafa gert það á þeim fundi heldur bent á að veikleikarnir yrðu skoðaðir.

En í þessu máli vil ég segja að Ríkisútvarpið á að njóta ákveðinnar sérstöðu. Það var upphaflega hugmyndin með upptöku þessarar gjaldtöku á sínum tíma. Hún kom í kjölfar afnotagjalda sem voru auðvitað líka markaður tekjustofn. Þetta eru þær aðferðir sem nágrannaþjóðir okkar hafa notað til að tryggja sjálfstæði ríkisfjölmiðla sinna. Það að beintengja framlögin við fjárlögin er sú leið sem Finnar fóru og þeir eru núna að snúa ofan af henni því þeir telja að hún hafi gefist illa.

Þótt ég sé sammála hv. þingmanni um nauðsyn þess að viðhalda aga í ríkisfjármálum og hafa kerfið sem gagnsæjast tel ég líka mikilvægt að við skoðum almannaþjónustumiðlana sérstaklega. Ég tel mig hafa rökstutt það að þeir séu á annan hátt hluti af ríkisvaldinu en hið þrískipta vald sem ég nefndi áðan.

Ég kom reyndar aðallega upp til að svara því sem hv. þingmaður spurði mig um og ég gleymdi í fyrra andsvari mínu, en það var að hæstv. fjármálaráðherra gerði ekki sérstaka athugasemd við framlagningu frumvarpsins, en auðvitað vísa ég til hæstv. fjármálaráðherra og að hann svari fyrir afstöðu sína sjálfur.