141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hann að því sama og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom að hér áðan um peninga hér og peninga þar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði fastar, þ.e. ákveðið nefgjald á alla Íslendinga sem er náttúrlega mjög ófélagslegt og slæmt en er ákveðið og undir engum áhrifum frá fjárlaganefnd eða fjárveitingavaldi Alþingis. Telur hv. þingmaður eðlilegt að gera þetta á sama tíma og verið er að skera niður út um allt? Það vantar tæki á Landspítalann, það vantar í löggæsluna og það vantar alls staðar pening og alls staðar er verið að skera niður, en þá á Ríkisútvarpið að fá sína peninga á silfurfati og þarf ekkert að hugsa um samdrátt eða eitthvað slíkt. Ég spyr hvort þeir peningar séu þá ekki teknir frá hinum. Það er eitthvað takmarkað sem hægt er að lesta skattgreiðendur í landinu.

Síðan er spurningin um hitt sem kom fram hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, reyndar ekki beint. Er það ekki útópía að halda að einhver fyrirtæki geti verið óháð? Er það ekki alltaf einhver sem greiðir laun fréttamannsins? Og hann veit hver greiðir launin hans, hver ákvarðar fjárveitinguna. Getur það annað en litað afstöðu þess fréttamanns þegar hann fjallar um viðkvæm mál sem snerta til dæmis fjármálaráðherra eða fjárlaganefnd eða eitthvað slíkt þegar hann veit þetta? Og er það ekki líka öfugt? Gætu þingmenn eða ráðherrar, sem eru í þeirri aðstöðu að geta skammtað fé til Fréttastofunnar, ekki gefið í skyn að þeir muni hugsanlega skerða fjárveitingar ef fréttaflutningur er þeim ekki að skapi?