141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er áhugasöm um að vita hvernig hv. þingmaður greiddi atkvæði á sínum tíma þegar hið ófélagslega útvarpsgjald var tekið upp 2007 og lögin um Ríkisútvarpið ohf. voru samþykkt, ég reikna með að hv. þm. geti svarað mér því. Ég er líka áhugasöm um að vita hvort það geti verið að þeir erlendu fjölmiðlar sem hv. þingmaður horfir á með hjálp nýjustu tækni séu almannaþjónustumiðlar í Bretlandi og Þýskalandi. Þeir eru væntanlega fjármagnaðir af skattgreiðendum þar og eru afskaplega góðir miðlar og jákvætt að hv. þingmaður fylgist með. Ég vil spyrja hv. þingmann þessara spurninga.

Hv. þingmaður nefndi stjórnarskipun. Ég vil benda honum á að í frumvarpinu kemur fram að kjörnir fulltrúar til Alþingis og sveitarstjórna eru ekki kjörgengir í stjórn Ríkisútvarpsins. Það kemur líka fram að þó að tilnefning valnefnda sé til tveggja ára verður aðalfundur að sjálfsögðu haldinn árlega og stjórn kosin árlega á aðalfundi. Hv. þingmaður gerði þetta að umtalsefni áðan en ég fór einmitt yfir það og það er kannski ástæða til að ítreka að eins og fyrirkomulagið er núna er aðalfundur haldinn árlega þó að þegar hafi verið kosin stjórn af þingi. En þetta gerist að sjálfsögðu árlega í samræmi við hlutafélagalög.

Hv. þingmaður nefndi líka óhæði og ég vil að lokum segja að við hljótum öll, svo fremi sem við viljum hafa almannaþjónustumiðla, að vilja tryggja gagnsæi. Það væri kannski ágætt að vita hvort hv. þingmaður vill yfir höfuð hafa almannaþjónustumiðla. Hann nefnir að réttast væri að bjóða út Ríkisútvarpið, en vilji maður hafa almannaþjónustumiðil hlýtur hið opinbera, löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið, að stefna að því að byggt sé á sem faglegustum grunni. Hv. þingmaður hlýtur að geta sett sig í þau spor að ef hann vill almannaþjónustumiðil hljóti hann líka að vilja tryggja fagmennsku þar innan húss og sem mestan aðskilnað frá hinu pólitíska valdi. Eða hvað?