141. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var einmitt ekki að vega að starfsmönnum sem slíkum. Ég sagði þá jafnvel siðlegri en flesta aðra og þeir mundu hugsanlega standast þessa freistingu, en þeir vita þetta og það er það sem ég er að tala um. Þetta er bara hluti af mannlegri hegðun og þegar byggt er upp kerfi þar sem menn vita að þeir eru háðir einum aðila eða meiri hluta einhvers staðar breytist hegðun þeirra. Þeir hafa gífurleg völd í þjóðfélaginu, við sjáum það til dæmis á þáttunum um stjórnarskrána, þeir taka saman fólk sem er sammála um málið og hafa gert trekk í trekk (SkH: Og ósammála.) Einn sem ég hef hlustað á, það getur vel verið að þeir hafi verið fleiri. En þeir hafa gífurleg völd hvað almenningsálitið snertir og þess vegna er freistingin mjög stór hjá þeim sem ráða að reyna að hafa áhrif.

Nú er ég ekki að segja að starfsfólk Ríkisútvarpsins standist ekki þá pressu en þeir vita hver borgar brúsann. Þetta er bara ákveðið vandamál sem við glímum við. Ég held að tillögur sem komu fram um að gera þetta að mörkuðum tekjustofni sé einmitt tilraun til að komast fram hjá þessum vanda. En eftir stendur 18 þúsund kall sem þingmenn og meiri hlutinn á Alþingi hverju sinni tekur ákvörðun um og þar með er aftur komið tangarhald á starfsmönnunum.